Raftækjaframleiðandinn Sony tilkynnti í dag að galli hefði fundist í hinum geysivinsælu Cyber-shot myndavélum, en fyrir skemmstu þurfti Sony að afturkalla gríðarlegan fjölda fartölvurafhlaða og biðu talsvert tjón af, segir í frétt Dow Jones.

Sony segir að í átta tegundum myndavéla gæti sjár ekki sýnt myndir á réttan hátt, vistaðar myndir kunna að skemmast eða að myndavélin tekur ekki myndir yfirleitt.

Sony hefur dreif einni milljón eintaka á markað í Japan og hefur verið tilkynnt um bilanir í 0,4% þeirra, enn sem komið er. Sony segist ætla að gera við myndavélarnar án endurgjalds.

Sony hefur verið gagnrýnt að undanförnu fyrir lélegt gæðaeftirlit, en Sony afturkallaði 9,6 milljónir fartölvurafhlaða sem varð til þess að hagnaður fyrirtækisins hrapaði um 94% á öðrum ársfjórðungi. Kostnaður vegna þróunar og markaðssetningar PlayStation3 fór einnig fram úr öllu valdi, en fyrirtækið glímir þar við tæknilega örðugleika.