Raftækjarisinn Sony hefur gefið út að félagið muni ekki lengur framleiða lófatölvur fyrir markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Framganga háþróaðra síma og ofurléttra fartölva er sögð vera meginástæðan fyrir þessari ákvörðun fyrirtækisins.

Hart hefur verið tekist á um það í tækniheiminum á undanförnum misserum hvaða stefnu þróun smærri fjarskipta- og aðstoðarraftækja (personal digital assistants) myndi taka og svo virðist sem tími þriðju kynslóðar farsímans sé e.t.v. loksins að renna upp fyrir alvöru.

Ákvörðun Sony kemur á óvart þar sem félagið er með 9,3% markaðshlutdeild á heimsvísu, en aðeins PalmOne og Hewlett-Packard eru með stærri markaðshlutdeild. Eftir mikinn uppgang lófatölvunnar í byrjun 10. áratugarins hefur hallað undan fæti þar sem krafan um "að vera tengdur" er orðin allsráðandi í dag.

Til þess að gefa innsýn inn í það hversu miklar væntingar voru bundnar við lófatölvuna á sínum tíma má rifa upp það þegar fjarskiptarisinn WorldCom fleytti dótturfyrirtæki sínu Palm á markaði í Bandaríkjunum um miðjan 10. áratuginn. Bréf í Palm hækkuðu svo mikið og svo ört að bréf í móðurfélaginu eingöngu urðu í raun verðlaus!

Flestar fartölvur og farsímar bjóða í dag þráðlausan aðgang að Internetinu og þykir sú staðreynd hafa lagt mest til við að spinna örlagavef lófatölvunnar. Þá er einnig talið að vel heppnað samstarf Sony og Ericsson á framleiðslu háþróaðra síma sem hafa notið sérstakra vinsældra í Evrópu hafi orðið til þess að flýta fyrir umræddri ákvörðun Sony.

Talið er þessar breytingar muni hafa mikil áhrif á PalmSource, framleiðanda stýrikerfisins fyrir lófatölvur þar sem Sony er næststærsti viðskiptavinur félagsins. Sala á handtölvum dróst saman um 12% á fyrstu þremur mánuðum ársins og nam þá 2,2 milljónum eintaka.