Gengi bréfa japanska afþreyingarfyrirtækisins Sony, sem meðal annars framleiðir Playstation leikjatölvurnar, féll um 12% við opnun markaða í dag. Gengi bréfanna stendur nú í 12,4 dölum á hlut og hefur ekki verið lægra í þrjá mánuði.

Microsoft, helsti keppinautur Sony á leikjatölvumarkaði, tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði náð samningum um kaup á tölvuleikjafyrirtækinu Activision Blizzard fyrir 68,7 milljarða dala, eða sem nemur 8.847 milljörðum króna, en Viðskiptablaðið greindi frá kaupunum í gær. Um er að ræða langstærstu fyrirtækjakaup í sögu Microsoft. Activision Blizzard hefur framleitt marga af vinsælustu tölvuleikjum heims, eins og Crash Bandicoot, World of Warcraft, Call of Duty, Diablo og Overwatch.

Fjárfestar hafa áhyggjur af því að Microsoft gæti tekið marga af vinsælari leikjum heims úr Playstation leikjatölvum Sony. Þannig gæti Microsoft ákveðið að leikir á borð við Call of Duty, sem nú er í eigu fyrirtækisins eftir kaupin á Activision, séu einungis aðgengilegir í gegnum Xbox leikjatölvur Microsoft, en ekki í gegnum Playstation, að því er kemur fram í grein hjá CNBC .

Sony hefur einnig keypt tölvuleikjafyrirtæki á síðastliðnum árum. Fyrirtækið keypti meðal annars Valkyrie Entertainment sem bjuggu til God of War tölvuleikinn.

Serkan Toto, forstjóri japanska ráðgjafarfyrirtækisins Kantan Games, telur að Sony muni halda áfram að kaupa tölvuleikjafyrirtæki og séu í góðri stöðu til að berjast við Microsoft og Xbox. Piers Harding-Rolls, greinandi hjá Ampere Analysis bendir þó á að kaup Microsoft á Activision veiki stöðu Sony töluvert á leikjamarkanum.