*

fimmtudagur, 21. október 2021
Erlent 10. júlí 2020 09:08

Sony kaupir í Fortnite

Japanska tæknifyrirtækið hefur fjárfest 250 milljónum dollara í Epic, sem framleiðir tölvuleikinn Fortnite.

Ritstjórn
Frá heimsmeistarmótinu í Fortnite árið 2019 sem haldið var í New York
epa

Sony hefur keypt 250 milljóna dollara hlut í tölvuleikjaframleiðandanum Epic sem er þekktast fyrir leikinn Fortnite. Hlutur Sony mun nema um 1,4% í Epic, sem er þó ekki nægilega mikið til að tryggja japanska tæknifyrirtækinu einkadreifingarrétt á leikjum Epic. 

Samningurinn kemur í kjölfar vinsælla sýndartónleika rapparans Travis Scott í Fortnite í apríl en um 12,3 milljónir manns horfðu á tónleikana í beinni. 

Fjárfesting japanska tæknifyrirtækisins kemur frá samstæðunni en ekki Playstation-deild hennar, samkvæmt David Gibson, greinanda Astris Advisory Japan. Hann telur það vera merki um að Sony vilji koma tónlist, myndum og öðru efni sínu inn í Fortnite heiminn. 

„Ef þú ert Sony, viltu ekki að listamenn þínir verði þeir fyrstu til að komast inn í sýndarheim Fortnite fram yfir Warner og aðra samkeppnisaðila?“ hefur Financial Times eftir Gibson. „Ef 250 milljónir dollara gefa þeim það tækifæri, þá er þetta taktísk rétt skref hjá Sony.“

Stikkorð: Sony Fortnite Epic