Japanska tæknifyrirtækið Sony hefur fært afkomuspá sína mikið niður. Stjórnendur fyrirtækisins búast nú með því að hagnaðurinn fari úr 50 milljörðum jena sem reiknað var með að myndi skila sér í hús fyrr á árinu niður í 30 milljarða jena. Þetta er 40% lægri hagnaður en búist var við.

Sony tapaði 19,3 milljörðum jena á síðasta fjórðungi sem er 25% verri afkoma en fyrir ári. Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins ( BBC ) um afkomu Sony að helsti dragbítur fyrirtækisins er sjónvarpsdeild fyrirtækisins sem hefur brennt gat í efnahagsreikning Sony og skýrist af því að verð á viðtækjum hefur lækkað mikið upp á síðkastið. Við þetta bætist verðlækkun á leikjatölvunni PS Vita. Rekstrartap sjónvarpshluta fyrirtækisins nam 17,8 milljörðum jena á fjórðungnum sem var talsverður viðsnúningur frá 7,9 rekstrarhagnaði fyrir ári.