Japanski rafmagnstækjaframleiðandinn Sony áætlar nú að segja upp allt að 8.800 manns sem allir starfa á þróunarsviði raftækja.

Sony tilkynnti um uppsagnirnar í morgun en auk þess að segja upp fólki verður leitast viða að hagræða í rekstri félagsins.

Ekki kom fram í tilkynningu Sony hvar í heiminum starfsmönnunum verður sagt upp en þó kemur fram að uppsagnirnar muni ná allt til apríl 2010.

Talsmaður Sony sagði við fjölmiðla í Asíu að félagið hefði á undanförnum vikum og mánuðum dregið úr framleiðslu sinni vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir en hins vegar þurfi meira til.

Félagið áætlar að spara allt að 1,1 milljarð Bandaríkjadali á næsta ári með sparnaðaraðgerðum.

Þetta var því nokkuð dökkur dagur í Japan því í morgun voru birtar tölur sem sýna að samdráttur landsframleiðslu var mun meiri í Japan á þriðja fjórðungi en upphaflega var talið.