Japanski raftækjaframleiðandinn Sony gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður þess verði um 630 milljarðar jena á reikningsárinu. Félagið, sem meðal annars framleiðir Playstation leikjatölvur, hafði áður gert ráð fyrir 500 milljarða jena hagnaði.

Aukning hefur hins vegar orðið í sölu á leikjatölvunni og aukahlutum fyrir snjallsíma sem er til þess fallið að auka hagnað þess, en fyrirtækið barðist á tímabili í bökkum. Í frétt á vef BBC segir að hagnaður á þriggja mánaða tímabili sem lauk í byrjun september hafi verið 204,2 milljarðar jena, samanborið við 45,7 milljarða ári áður.