Rekstrarvandi Sony leystist ekki á fjórða ársfjórðungi heldur var japanski tæknirisinn rekinn með 10,8 milljarða jena tapi á því tímabili. Nemur tap Sony fyrir allt síðasta ár 50,9 milljörðum jena, andvirði um 69 milljörðum króna.

Sony hefur farið illa út úr samkeppninni við Samsung og varaði við því í dag að sala á raftækjum eins og myndavélum og sjónvörpum, verði lakari en áður hefur verið gert ráð fyrir.

Þrátt fyrir þetta gerir Sony ráð fyrir algerum viðsnúningi í rekstri fyrirtækisins á þessu ári og spáir 20 milljarða jena hagnaði fyrir árið 2013. Treystir Sony á veikara gengi jensins, betri afkomu fjármálaarms fyrirtækisins og eignasölu til að ná þessu markmiði.