*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 28. apríl 2020 20:22

„Sorgardagur í íslenskri flugsögu“

Formaður Flugfreyjufélagsins segir uppsagnir dagsins gífurlegt áfall, og bendir á að ekki sé hægt að reka flugfélag án áhafna.

Höskuldur Marselíusarson
Fugfreyjur Icelandair í búningnum sem margar munu nú verða að leggja til hliðar, sumar hverjar með yfir 30 ára starfsreynslu. Starfandi formaður Flugfreyjufélagsins, Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, að neðan, bindur vonir við að ástandið batni á næstu vikum.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir starfandi formaður Flugfreyjufélagsins segir uppsagnir dagsins meðal flugfreyja og flugþjóna Icelandair vera gífurlegt áfall fyrir stéttina.

Hún segist ekki geta tjáð sig um samninga Flugfreyjufélagsins við Icelandair, því þeir séu nú hjá Ríkissáttasemjara, að öðru leiti en því að félagið sé tilbúið í samtalið og koma til móts við Icelandair á þessum óvissutimum vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Þrátt fyrir uppsagnirnar nú verði það áfram sami hópurinn sem kjósi um kjarasamninga við félagið.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir rúmri viku síðan að stéttarfélagið neitaði að samþykkja kjaraskerðingu til félagsmanna til frambúðar. Af þeim ríflega 2 þúsund sem sagt var upp í hagræðingaraðgerðum félagsins í dag voru 897 flugfreyjur.

„Þetta er sorgardagur í íslenskri flugsögu, það hafa aldrei jafnmargir misst vinnuna á einum degi, en á sama tíma bindum við vonir við að ástandið batni á næstu vikum og það verði mögulega hægt að draga til baka eitthvað af þessum uppsögnum,“ segir Guðlaug Líney í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég held að hópurinn hafi svo sem gert sér grein fyrir því að það stefndi í uppsagnir, en ekki svona miklar, þetta eru 95% af stéttinni hjá félaginu. Þarna eru þeir að miða við núverandi flugáætlun, sem er nánast ekki neitt, sex brottfarir á viku, og einungis rekin með beinni aðkomu og styrk ríkisins.

Samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum ef til hópuppsagna kemur þá þarf að fara eftir starfsaldri, þannig að það var byrjað neðst, en síðan voru örfáar undanþágur frá því, þá bæði þær sem starfa í trúnaðarstörfum fyrir hönd Icelandair og svo trúnaðarmenn stéttarfélagsins. Það eru einstaklingar með yfir 30 ára starfsreynslu hjá flugfélaginu að missa vinnuna núna svo þetta nær rosalega hátt upp starfsaldurslistann.“

Eins og fjallað var um á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag munu stjórnvöld framlengja heimild til töku hlutaatvinnuleysisbóta, sem og að ríkið hyggst greiða hluta launa á uppsagnarfresti, að hámarki 633 þúsund króna á mánuði, sem Guðlaug Líney segir flugfreyjur almennt vera undir.

Hún segir ekki ólíklegt að flugfreyjur og flugþjónar muni leita á önnur mið, í stað þess að bíða eftir því að úr rætist, þá sérstaklega þeir sem eru yngri í starfinu, enda verði þær sem eru með elsta starfsaldurinn ráðnar fyrst.

„Menntunarstig flugfreyja hjá Icelandair er mjög hátt, og eru margar til dæmis hjúkrunarfræðingar,“ segir Guðlaug Líney sem bendir á að ekki sé hægt að reka flugfélag án flugáhafna.

„Endurráðningar verða svo beintengdar flugáætluninni, ef hún fer að aukast á ný, þá þarf að ráða inn fleiri, og þá verður ráðið aftur eftir starfsaldri sem og frammistöðu, líkt og kjarasamningurinn gerir ráð fyrir. Þær sem eru eftir núna eru allar í 25% starfi, en voru margar áður í 50 eða 75% starfi sem er heimilt eftir 55 ára aldur. Þess vegna er gert ráð fyrir aðeins fleirum í starfi en stöðugildin segja til um, þegar hlutabótaleiðin verður ekki lengur heimild.“