*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 24. ágúst 2019 19:01

Sorglegt ef þekkingin glatast

Aptoz Engine Services er nýtt fyrirtæki sem stofnað var af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum flugfélaganna Wow air og Icelandair.

Magdalena Anna Torfadótt
Haraldur Guðjónsson

Nokkrir fyrrverandi starfsmenn  flugfélaganna Wow air og Icelandair hafa stofnað fyrirtæki sem sérhæfir sig í flugþjónustu. Fyrirtækið heitir Aptoz Engine Services og var stofnað af þeim Braga Baldurssyni, Andra Áss Grétarsyni, Hafdísi Ósk Pétursdóttur, Kristjáni Orra Magnússyni, Sigurði Óla Gestsyni og Sindra Rúnari Úlfarssyni.

Bragi Baldursson, sem er jafnframt stjórnarformaður félagsins, segir að fyrirtækið hafi fengið mjög góðar viðtökur. „Það má í raun segja að við séum bara rétt í startholunum núna. Við erum komin með starfsmenn og húsnæði og erum að byrja að vinna með okkar fyrstu viðskiptavinum. Það er óhætt að segja að við höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur,“ segir Bragi og bætir við að þau sjái strax að mikil þörf sé á fyrirtæki af þessu tagi.

„Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði í kjölfar gjaldþrots Wow air en við sem komum að stofnun þess unnum flest hjá flugfélaginu. Það eru svo margir starfsmenn sem störfuðu hjá Wow air sem búa yfir gríðarlega mikilli þekkingu og góðri reynslu í flugmálum og það væri mjög sorglegt að missa það fólk í aðra geira. Þannig að við ákváðum bara að slá til og stofna fyrirtækið í samstarfi við nokkra hreyflaverkfræðinga og sérfræðinga í fjármálum.“ Að sögn Braga er í raun um að ræða tvö fyrirtæki, annars vegar Aptoz sem sér um vottanir á breytingum og viðgerðum á flugvélum. Hins vegar er það Aptoz Engine Sevices en það sér um þjónustu við flugfélög. „Aptoz Engine Services munu sérhæfa sig í þjónustu við hreyfla flugvéla.“

Bragi bætir við að fyrirtækið tengist ekki WAB air hópnum, sem hyggst stofna nýtt íslenskt flugfélag, á nokkurn hátt. „Við erum bara fyrrverandi starfsmenn Wow air og Icelandair sem viljum nýta þá þekkingu og reynslu sem við höfum öðlast í gegnum tíðina, meðal annars við að starfa hjá Wow air og Icelandair.“

Spurður hvort hann telji að fyrirtækið muni þegar fram líða stundir fara að bjóða upp á víðtækari þjónustu segir Bragi að svo geti vel verið.

„Eins og staðan er núna erum við aðeins að einblína á okkar fyrstu verkefni en svo getur vel verið að við munum einhvern tímann reka almennilega alhliða þjónustu við fluggeirann. En svona til að byrja með ætlum við að fókusera á þessi kjörsvið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.