Play hefur sent frá sér tilkynningu þar sem félagið lýsir yfir sárum vonbrigðum með að Drífa Snædal, forseti ASÍ, „skuli bregða fæti fyrir nýtt flugfélag sem er beinlínis stofnað til að færa Íslendingum kjarabætur í formi lægri flugfargjalda".

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í dag að miðstjórn ASÍ hefði sent frá sér ályktun þar sem Play er sakað um undirboð launa og landsmenn hvattir til að sniðgangafélagið . Viðskiptablaðið birti jafnframt hluta fréttaskýringar þar sem fram kemur að ASÍ ber strípuð lægstu grunnlaun flugliða Play saman við föst laun flugliða Icelandair , en ekki grunnlaun.

Birgir Jónsson, forstjóri Play segir í yfirlýsingunni gríðarlega alvarlegt að ASÍ skuli stíga fram með staðhæfingar sem ekki eigi við rök að styðjast. Þá segir hann Drífu Snædal, forseta ASÍ, hafa verið boðið að koma til þeirra til að kynna sér málin en hún hafi hafnað því. Hann segir ASÍ sýna valdhroka með því að hvetja Íslendinga til að sniðganga félagið og telur annarlega hagsmuni hljóta að vera að verki.

„Ég trúi ekki öðru en að fólk fordæmi þessa aðför ASÍ að fyrirtæki sem vinnur að því að bjóða samkeppni á íslenskum flugmarkaði. Í takti við þann góða anda sem ríkir innan Play þá erum við til í að fyrirgefa þetta skammarlega upphlaup ef ASÍ dregur ásakanir sínar tilbaka. Öðrum kosti mun félagið leita réttar síns til að bæta þann skaða sem ASÍ veldur með því að skora á fólk að sniðganga Play,“ segir hann meðal annars í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Sorglegur og annarlegur áróður ASÍ; flugliðar Play með um hálfa milljón í tekjur

Play lýsir yfir sárum vonbrigðum með að Drífa Snædal, forseti ASÍ, skuli bregða fæti fyrir nýtt flugfélag sem er beinlínis stofnað til að færa Íslendingum kjarabætur í formi lægri flugfargjalda.

Í ályktun miðstjórnar ASÍ í dag er staðhæft að Play greiði lægri laun en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er rangt, flugliðar Play geta vænst ágætra launa. Launakjör flugstétta Play eru auk þess mun betri en þekkist hjá flestum flugfélögum í Evrópu þar sem hálaunaumhverfi flugstétta, eins og tíðkast hefur á Íslandi, hefur fyrir löngu runnið sitt skeið með nýjum rekstrarmódelum og almennum vexti í flugi sem samgöngumáta. Skráning ríflega 70 þúsund viðskiptavina á póstlista Play er staðfesting á þessu nýja umhverfi.

ASÍ sýni ábyrgð og miðli boðskap sínum af sanngirni

Fastar mánaðarlegar tekjur flugliða sem ráða sig til Play eru á bilinu 351.851 til 454.351, óháð vinnuframlagi. Ofan á þær tekjur bætast svo flugstundagreiðslur, sölulaun og dagpeningar. Meðal mánaðartekjur sem almennir flugliðar Play geta vænst, sem eru að koma inn til starfa á kjarasamningi Íslenska flugstéttafélagsins, eru í kringum 500 þúsund íslenskar krónur og þá hefur verið tekið tillit til sumar[1]og vetrarfrísmánuða. Launin miðast við 67,1 fartíma að jafnaði. Launaflokkarnir eru fjórir og geta launin því verið enn hærri.

Lægstu föstu laun Play eru rúm 350 þúsund, samanborið við 307 þúsund hjá Icelandair samkvæmt Viðskiptablaðinu

Fleiri rangfærslur hafa komið fram í ályktun ASÍ en Play gerir þá kröfu til ASÍ að samtökin miðli sínum sjónarmiðum með sanngjörnum hætti. Alvarlegast er þó það sem kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins um kl. 17:00 í dag en þar kemur fram að ASÍ sakar Play um undirboð á sama tíma og Flugfreyjufélagið, sem á aðild að ASÍ, hefur samið um töluvert lægri laun við Icelandair, sé miðað við lægstu föst laun. Samkvæmt ASÍ stundar ASÍ því sjálf félagsleg undirboð. Play hefur ekki kjarasamning Flugfreyjufélagsins og hafði því enga vitneskju um þetta fyrr en Viðskiptablaðið leitaði viðbragða félagsins varðandi það að ASÍ héldi fram röngum tölum þegar augljóst væri að lægstu föstu laun Play væru hærri en hjá Icelandair. Svo allrar sanngirni sé gætt gagnvart Icelandair er Play ekki að halda því fram að heildarlaun Icelandair séu ekki hærri en hjá Play enda er Icelandair ekki lággjaldaflugfélag.

ASÍ eða Flugfreyjufélagið hefur ekki ítrekað leitað eftir samningum við Play. Það er rangt. Flugfreyjufélagið hafði fyrst samband við Play nú í vor, einu og hálfu ári eftir að Play gekk frá samningum við Íslenska flugstéttafélagið. Play er með kjarasamning við Íslenska flugstéttafélagið en það félag á ekki aðild að ASÍ. Íslenska flugstéttafélagið er 7 ára gamalt, hafði áður haft samninga við Wow air. Enginn vilji hefur verið hjá ASÍ að funda með Play nema Flugfreyjufélagið eigi aðild að fundinum. Ljóst má vera að fyrir ASÍ vakir ekki annað en að gæta hagsmuna Flugfreyjufélagsins. Play hefur verið reiðubúið til að upplýsa ASÍ um kjarasamninga við Íslenska flugstéttafélagið en hefur jafnframt hafnað því að Flugfreyjufélagið eigi aðild að slíkum fundum enda félagið í samkeppni við ÍFF á íslenskum flugmarkaði. ASÍ hefur hafnað öllum fundum með Play án aðkomu Flugfreyjufélagsins, nú síðast í þessari viku.

  • Play er alls ekki að borga lægstu laun á íslenskum vinnumarkaði. Nýráðnir flugliðar geta vænst þess að vera með um 500 þúsund í laun í byrjun.
  • Samkvæmt þeim upplýsingum sem Play hefur er gildistími kjarasamninga félagsins áþekkur samningum Icelandair við sínar flugstéttir, þeir renni út haustið 2025.
  • Launakjör flugstétta Play eru mun betri en þekkjast hjá öðrum lágfargjaldafélögum í Evrópu.
  • Almennt mótframlag í lífeyrissjóð er 11,5%, auk 2% framlags í séreignarsjóð. Því ekki rétt að mótframlag atvinnurekanda á almennum vinnumarkaði séu 15,5% eins og Drífa hefur haldið fram.
  • Mótframlag Play til stéttarfélagsins felur í sér framlag í sjúkrasjóð og félagssjóð Íslenska flugstéttafélagsins, sem er í takt við það sem greitt er með starfsmönnum Play sem eru í öðrum stéttarfélögum.
  • Þá fær starfsfólk Play að sjálfsögðu greitt vegna veikinda barna samkvæmt reglum almennum vinnumarkaði (12 dagar á 12 mánaða tímabili).

„Það er gríðarlega alvarlegt að ASÍ skuli með þessum hætti stíga fram með staðhæfingar sem ekki eiga við rök að styðjast, og það eftir að hafa verið boðið að koma til okkar til að kynna sér málin en hafa jafnframt hafnað því, og sýna svo þennan valdhroka að hvetja Íslendinga til að sniðganga félagið. Hér hljóta annarlegir hagsmunir að vera að verki. Ég trúi ekki öðru en að fólk fordæmi þessa aðför ASÍ að fyrirtæki sem vinnur að því að bjóða samkeppni á íslenskum flugmarkaði. Í takti við þann góða anda sem ríkir innan Play þá erum við til í að fyrirgefa þetta skammarlega upphlaup ef ASÍ dregur ásakanir sínar tilbaka. Öðrum kosti mun félagið leita réttar síns til að bæta þann skaða sem ASÍ veldur með því að skora á fólk að sniðganga Play. Það hlýtur að vera öllum almenningi ljóst að við fengjum ekki margar umsóknir ef fólk fengi 260 þúsund krónur í laun eins og ASÍ heldur fram. Hálf milljón í tekjur, í skemmtilegri vinnu með vinnuskyldu sem er frábrugðin hinum almenna vinnumarkaði heillar hinsvegar eins og sést á þeim fjölda starfsumsókna sem við höfum fengið. Við Íslendingar eigum að vera betri en þetta" segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.