Þriðji stærsti hluthafi í Glitni er félag á vegum Quantum Partners, vogunarsjóðs George Soros, en félagið hefur bætt við sig töluvert í bankanum á síðasta ári að því er Fréttablaðið greinir frá. Fór eignarhlutur félags fjárfestisins fræga úr 5,6% í árslok 2016 í 14,1% í lok síðasta árs samkvæmt ársreikningi.

Eins og Viðskiptablaðið segir frá í blaði dagsins kemur þar jafnframt fram að Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson fyrrverandi slitastjórnarmenn í Glitni fengu tæplega 140 milljóna greiðslu í lok ársins.Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital bætti einnig við eignarhlut sinn í Glitni á síðasta ári, en hann er enn stærsti eigandinn í sjóðnum.

Fór eignarhlutur sjóðsins TCA Opportunity Investments, sem Taconic Capital stýrir, úr 13,4% eignarhlut í 17,7% eignarhlut. Deutsche Bank í London er skráður næst stærsti hluthafi Glitnis með 17,5% eignarhlut, en um er að ræða stýringu bankans fyrir alþjóðlega sjóði.

Morgan Stanley bankinn er svo fjórði stærsti eigandinn, með 8,2% hlut sem hann eignaðist á síðasta ári en þar á eftir kemur breski bankinn Barkleys með 8,1%. Næstur er svo Burlington Loan Managemt sem er í eigu bandaríska vogunarsjóðsins Davidson Kempner með 6,4%.