Fjárfestirinn George Soros, sem Financial Times, valdi í gær mann ársins , hefur fært sig frá þeirri fjárfestingastefnu sem gerði hann að milljarðamæringi. Soros auðgaðist gríðarlega á að veðja á miklar breytingar á þjóðhagsstærðum á borð við gengi gjaldmiðla, skuldabréfa eða hrávara.

Dawn Fitzpatrick, fjárfestingastjóri Soros Fund Management, fjárfestingafélags Soros, segir að færri tækifæri bjóðast í þessum viðskiptum sem stendur en áður að því er Bloomberg greinir frá .

Adam Fisher, sem sinnir fjárfestingum tengdum þjóhagsstærðum og fasteignamarkaðnum, er sagður hafa úr 500 milljónum dollara að spila miðað við 3 milljarða dollara fyrir ári. Ávöxtun deildar Fisher hafi verið neikvæð um 4-5% það sem af ári. Hins vegar hefur ávöxtun Soros Fund Management í heild verið jákvæð á árinu en stærð félagsins er talin nema um 25 milljörðum dollara.

Þekktasta fjárfesting George Soros er sennilega þegar hann hagnaðist um milljarð dollara við að veðja á verðfall breska pundsins árið 1992.