Auðkýfingurinn George Soros kvæntist námsráðgjafanum Tamiko Bolton um helgina. Þetta var þriðja skiptið sem Soros gengur upp að altarinu. Talsverður aldursmunur er á hjónakornunum. Soros er fæddur árið 1930 og fagnaði 83 ára afmæli í ágúst síðastliðnum. en Bolton er 42 ára gömul.

Brúðkaupið var haldið á heimili þeirra hjóna í villu sem Soros keypti af bandaríska rithöfundinum Michael Crichton og er í Westchester í New York-ríki árið 2003.

Á meðal 500 gesta í brúðkaupsveislunni voru auk fimm barna Soros þau Bono, aðalsprauta írsku hljómsveitarinnar U2, Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu og Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu.

George Soros er einn af auðugustu mönnum heims. Bandaríska dagblaðið The Global Post bendir á það í skrifum sínum um brúðkaupið að auður hans er metinn á 20 milljarða dala, samkvæmt útreikningum Forbes. Það gera um 2.400 milljarða íslenskra króna. Soros er einna þekktastur fyrir að hafa hagnast gríðarlega á skortsölu á breska pundinu 16. september árið 1992. Veðmál hans þá fólst í því að hann bjóst við að pundið myndi veikjast gagnvart þýska markinu. Hann hefur endurtekið leikinn á gjaldeyrismarkaði síðan þá, s.s. með því að skortselja ástralska dollara skömmu áður en seðlabanki Ástralíu tilkynnti um lækkun stýrivaxta á þessu ári.