Milljarðamæringurinn George Soros kynnti í dag áætlun, sem mun veita flóttafólki byr undir báða vængi. Fjárfestirinn ætlar sér að festa 500 milljónum Bandaríkjadala í fyrirtæki sem stofnuð eru af innflytjendum og flóttafólki. Einnig ætlar hann að aðstoða fyrirtæki og hópa sem vilja hjálpa flóttafólki að koma undir sig fótunum.

Soros þekkir það af eigin skinni að flýja land, en árið 1947 flúði hann frá Ungverjalandi til Englands. Alþjóðleg hjálparsamtök munu aðstoða hann við að ákvarða hvaða verkefni munu hljóta fjármögnun og hver ekki.

Í samtali við CNN sagði hann mörg áhugaverð verkefni koma til greina, sum þessara verkefna tengjast tækni og eiga að hans sögn að auðvelda fólki að eiga samskipti við opinberar stofnanir, skilja lagaramma, stofna bankareikninga og allt þar fram eftir götunum.

Markmið milljarðamæringsins er að aðstoða flóttafólk sem er að koma til Evrópu í fyrsta sinn, en vonast samt til þess að nýjungarnar sem verða til geti nýst flóttafólki á heimsvísu.

Rúmlega 65 milljónir manna hafa neyðst til þess að flýja heimili sín á heimsvísu. Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna, eru 21,3 milljón manns skráð sem flóttafólk, en rúmlega helmingur þeirra er undir lögaldri.

Árið 2015 sóttu 1,3 milljónir manns um hæli í Evrópu, sem var tvöfalt meira en árið 2014. Þessi mikla fólksfjölgun, hefur skapað ósætti milli Evrópubúa og stjórnmálaafla, sem ekki ná að sameinast um stefnu í málefnum flóttafólks.