Milljarðamæringurinn og spákaupmaðurinn George Soros segir að bólan á hrávörumarkaði muni stækka enn frekar eftir að olía, hveiti og gull náðu methæðum sínum.

Hann sagði hrávörur nú orðnar að eignum sem fjármálastofnanir notuðust við í viðskiptum sínum í síauknum mæli. „Auk þessa eru sérstakir þættir sem mynda hlutfallslegan skort á olíu, og nú einnig mat," sagði hann.

Olíuverð náði methæðum í dag, og hrísgrón hafa tvöfaldast í verði á einu ári. Kornverð hefur hækkað um 68% á einu ári og hveiti um 92%. Heildarfjárfesting í hrávörum á fyrsta fjórðungi jókst um ríflega fimmtung og nam 400 milljörðum dollara, að því er Citigroup hefur gefið út.

Ávöxtun af fjárfestingum í hrávörum hefur verið mun betri en í hluta- og skuldabréfum á þessu ári. Þetta hefur ýtt meðal annars lífeyrissjóðum út í slíkar fjárfestingar.