Sveitarfélögin sem eiga Sorpu hafa ákveðið að ráðast í byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta næsta árs og að stöðin verði tekin í notkun um mitt ár 2016. Fram kemur í Fréttatímanum í dag að gróft kostnaðarmat vegna stöðvarinnar hljóðar upp á um 2,7 milljarða króna. Framreiknað er það álíka mikið og kostaði að reisa móttökustöð Sorpu í Gufunesi.

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir í samtali við Fréttatímann, að með nýju stöðinni gjörbreytist öll meðhöndlun á þeim úrgangi sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu setja frá sér í sorptunnur. Í stað þess að urða um 30 þúsund tonn af heimilisúrgangi á ári eins og nú muni um 70% magnsins fara í nýju stöðina þar sem úrgangurinn verður endurunninn og honum breytt í metangas og jarðvegsbæti.