Hagnaður SORPU b.s. fyrstu sex mánuði ársins nam tæpum 19 milljónum króna en var 64,8 milljónir fyrir sama tímabil í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur fram að hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir nam 93,4 milljónum króna en var 44,9 milljónir króna fyrir sama tímabil á árinu 2007.

Rekstrartekjur samlagsins námu 992,3 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 945,7 milljónir króna árið 2007 sem er 4,93% hækkun.

Rekstrargjöld, án afskrifta og fjármagnsliða voru 839 milljónir króna samanborið við 841,5 milljónir króna árið 2007 en lækkunin nemur tæpum 0,4%.

Heildareignir samlagsins 30. júní 2008 námu 1.916,7 milljónum króna og heildarskuldir 797,1 milljón króna. Eigið fé í lok tímabilsins var 1.119,6 milljónir króna og hafði aukist um tæpar 21 milljón frá því í upphafi árs.

Eiginfjárhlutfall var um 58,4 % en var í lok síðasta árs 60,2%. Handbært fé frá rekstri var á tímabilinu  285,1 milljón króna en var fyrir sama tímabil árið áður 100,8 milljónir króna.

Veltufjárhlutfall í júnílok 2008 var 1,37 og handbært fé nam um 367 milljónum króna.

Fjárfestingarhreyfingar voru um 138 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 42 milljónir króna.