Stjórn Sorpu bs. samþykkti á síðasta stjórnarfundi að heimila framkvæmdastjóra fyrirtækisins að taka yfirdráttarlán upp á allt að 50 milljónir króna.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir í samtali við blaðið að þetta sé gert til að eiga fyrir útborgun launa um hver mánaðarmót. Hann segir að vegna mismunar á tímasetningu greiðslu launa, sem fer fram síðasta virka dag hvers mánaðar, og innheimtu reikninga stærstu viðskiptavina í upphafi hvers mánaðar geti myndast ástand um hver mánaðamót þar sem brúa þarf bilið til að greiða út laun.

Þá kemur fram að margir af stærstu viðskiptavinum Sorpu eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem jafnframt eiga og reka fyrirtækið. Björn segir að þrátt fyrir það sé ekki einfalt mál að færa til greiðslu þeirra á reikningum sínum.

„Þú breytir ekki viðskiptakjörum eða skilmálum einhliða í einni andrá en við munum skoða þessa hluti á næstu mánuðum,“ segir Björn og  bætir því við að markmiðið sé að hafa rekstur Sorpu sem mest á núllinu.