*

sunnudagur, 13. júní 2021
Fólk 18. desember 2020 10:15

Sorpa ræður nýjan framkvæmdastjóra

Jón Viggó Gunnarsson ráðinn framkvæmdastjóri SORPU, en hann hefur verið deildarstjóri á skrifstofu framkvæmdastjóra.

Ritstjórn
Jón Viggó Gunnarsson, nýr framkvæmdastjóri Sorpu, er véla- og rekstrarfræðingur.
Aðsend mynd

Stjórn SORPU bs. hefur ákveðið að ráða Jón Viggó Gunnarsson í starf framkvæmdastjóra. Jón Viggó tekur við starfinu á fyrsta degi nýs árs af Helga Þór Ingasyni, sem var tímabundið ráðinn framkvæmdastjóri SORPU í febrúar. Jón Viggó var valinn úr hópi 32 umsækjenda.

Jón Viggó er véla- og rekstrarverkfræðingur frá Háskólanum í Álaborg og kláraði meistaragráðu í faginu árið 2000. Hann starfaði hjá EJS á árunum 2000-2009, fyrst sem ráðgjafi á hugbúnaðarsviði en síðar sem framkvæmdastjóri sölusviðs og framkvæmdastjóri launasviðs. Hann var forstjóri fyrirtækisins frá 2006-2008.  

Jón Viggó var stofnandi Thor Data Center og starfaði þar sem framkvæmdastjóri frá 2008-2011. Hann var forstöðumaður upplýsingatæknireksturs RB frá 2012 til 2014 en fór svo til CCP þar sem hann var til ársins 2019. Þar tók hann þátt í mótun stefnu á upplýsingatæknirekstri og öryggismálum CCP en frá 2017-2019 var hann framkvæmdastjóri Shared Services hjá fyrirtækinu.

Jón Viggó er núna deildarstjóri á skrifstofu framkvæmdastjóra SORPU þar sem hann ber ábyrgð á starfsemi skrifstofu framkvæmdastjóra sem gegnir lykilhlutverki í umbreytingu SORPU í tækni- og þekkingarfyrirtæki.

„SORPA stendur á tímamótum. Á árinu sem er að líða hefur fyrirtækið gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og unnið að uppkeyrslu GAJU, einu stærsta loftslagsverkefni á höfuðborgarsvæðinu síðan heitt vatn var lagt í hús,“ segir Jón Viggó.

„Verkefni næstu missera og ára hjá SORPU kalla á umbreytingu á fyrirtækinu til að ná því markmiði að hætta að urða úrgang, styðja við hringrásarhagkerfið með því að finna úrgangi betri endurvinnslufarvegi og stuðla að vitundarvakningu um bætta úrgangsmeðhöndlun með bættri flokkun á upprunastað. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni og gera SORPU enn betri.“

Líf Magneudóttir, formaður stjórnar SORPU óskar Jóni Viggó til hamingju með nýtt, spennandi og krefjandi hlutverk.

„SORPA hefur undanfarið gengið í endurnýjun lífdaga og er á mikilli siglingu við að innleiða hringrásarhagkerfið, stemma stigu við loftslagsbreytingum og um leið sinna mikilvægum verkefnum sem snerta íbúa höfuðborgarsvæðisins og náttúruna með beinum hætti,“ segir Líf.

„Ég hlakka til samstarfsins með nýjum framkvæmdastjóra og kveð Helga Þór með virktum og þakklæti. Hann hefur lyft grettistaki hjá SORPU frá því við leituðum til hans fyrir tæpu ári síðan. Ég er full eftirvæntingar að starfa áfram að því að færa SORPU í fremstu röð í úrgangsmálum og innleiða ýmsa nýsköpun með nýjum framkvæmdastjóra.“