Samkeppniseftirlitið segir að Sorpa hafi brotið gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir flokkun og meðhöndlun úrgangs og leggur 45 milljóna króna sekt á fyrirtækið.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitisins segir að brotið felist m.a. í því að Sorpa hafi veitt eigendum sínum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, hærri afslætti en öðrum viðskiptavinum, s.s. sorphirðufyrirtækjum, jafnvel þó fyrirtækin kæmu með meira magn af sorpi en sveitarfélögin í móttökustöð Sorpu í Gufunesi. Er það mat Samkeppniseftirlitsins að þessir mismunandi afslættir Sorpu hafi haft skaðleg áhrif á samkeppni sem birtust m.a. í útboði Hafnarfjarðarbæjar á sorphirðu árið 2009 og í samningi sem Sorpa gerði við Sorpstöð Suðurlands.

Í þeim samningi veitti SORPA sorpstöðinni talsvert hærri afslætti en einkareknum sorphirðufyrirtækjum og öðrum viðskiptavinum býðst samkvæmt almennri gjaldskrá. Umræddir afslættir SORPU taka því ekki mið af því kostnaðarhagræði sem felst í auknum viðskiptum sem áskilið er þegar um viðskipti markaðsráðandi fyrirtækja er að ræða.