*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 22. janúar 2020 18:47

Sorpa víkur Birni til hliðar

Stjórn Sorpu ákvað að „afþakka vinnuframlag framkvæmdastjóra félagsins“ tímabundið vegna 1,4 milljarða framúrkeyrslu.

Ritstjórn
Stækkun móttökustöðvar og uppsetningar gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu á Gufunesi fór 1,4 milljarða króna fram úr kostnaðaráætlunum og metur stjórn félagsins nú stöðu framkvæmdastjórans þess vegna.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Sorpu hefur vikið Birni H. Halldórssyni framkvæmdastjóra félagsins til hliðar tímabundið meðan félagið fer yfir mál hans vegna 1,4 milljarða króna framúrkeyrslu í rekstri félagsins.

Var orðalagið neðarlega í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla um málið þannig:

„Á fundinum var samþykkt að afþakka vinnuframlag framkvæmdastjóra félagsins á meðan mál hans er til meðferðar innan stjórnar.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þurfti félagið að taka milljarð í viðbótarlán vegna þess sem kallað voru mistök við fjárhagsáætlun stækkunar móttökustöðvar félagsins á Gufunesi og aukins kostnaðar við gas- og jarðgerðarstöð.

Var ákvörðun stjórnarinnar tekin eftir skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um framúrkeyrsluna og úttekt á stjórnarháttum félagsins sem er í samvinnufélag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Hér má sjá fréttatilkynninguna í heild:

„Á stjórnarfundi Sorpu bs. sem haldinn var í dag var kynnt skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um ástæður frávika sem urðu á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi (GAJA). Skýrslan var unnin að beiðni stjórnar Sorpu og var Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar jafnframt falið að gera úttekt á stjórnarháttum félagsins.

Skýrslan var afhent stjórn Sorpu þann 30. desember sl. Þann sama dag var framkvæmdastjóra Sorpu einnig afhent eintak af skýrslunni og þann 6. janúar sl. var honum gefinn frestur til að skila til stjórnar andmælum sínum og athugasemdum. Úttektin var tekin til efnislegrar meðferðar á stjórnarfundi í dag og í kjölfarið sett á vef Sorpu þar sem hún er öllum aðgengileg. Á fundinum var samþykkt að afþakka vinnuframlag framkvæmdastjóra félagsins á meðan mál hans er til meðferðar innan stjórnar.

Stjórn Sorpu mun á næstu mánuðum rýna efni úttektarinnar og leita leiða til þess að efla yfirsýn, stjórnarhætti og eftirlitsþætti félagsins í samráði við eigendur sína, en félagið er rekið sem byggðasamlag sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Forsvarsmenn félagsins munu ekki tjá sig um efni skýrslunnar eða frekari viðbrögð við henni á meðan andmælafrestur framkvæmdastjórans er í gildi og stjórninni hefur gefist tími til að gaumgæfa athugasemdir hans.“

Hér má loks lesa skýrsluna í heild, en hún er skráð 71 blaðsíða að lengd, í fjórum liðum, hver með frá 3 upp í 8 undirliðum, sem sumir eru einnig með undirliði.