Breskt efnahagslíf hefur lítið rétt úr kútnum að undanförnu, en þar gerir ríkisskuldakreppa mönnum lífið leitt sem annars staðar. George Osborne fjármálaráðherra bíður erfitt verkefni og um árangurinn er óvíst.

Þegar David Laws, hinn nýbakaði ráðherra ríkisfjármála í Bretlandi, kom í fyrsta sinn á skrifstofu sína í Whitehall eftir ríkisstjórnarmyndun íhaldsmanna og frjálslyndra, beið hans bréf frá Liam Byrne, fyrirrennara hans, á skrifborðinu. Það var stutt: „Sorrí, allur peningurinn er búinn.“

Þessi skilaboð voru auðvitað skrifuð í kerskni, en eru ekki fjarri sanni. 13 ára stjórn Verkamannaflokksins umgekkst ríkisfjármálin af yfirgengilegri léttúð; hafði beinlínis að stefnu að auka útgjöld hins opinbera, líkt og það væri sérstök dyggð, í trausti þess að ímynduð eilífðarvél „nýja hagkerfisins“ myndi sífellt auka tekjur ríkisins, lánsfjárgnóttin tæki engan enda og aldrei þyrfti að borga upp síðasta lánið. Þegar kreppan dundi svo yfir taldi Gordon Brown ráðlegast að „eyða sér leið út úr kreppunni“ og jók lántökur hins opinbera um allan helming, dældi nýprentuðum peningum út í hagkerfið í gegnum alls kyns áætlanir og opinberar framkvæmdir og lofaði því að ríkisútgjöldin myndu halda áfram að aukast hvað sem öðru liði. Það var um það leyti sem Mervyn King Englandsbankastjóri gaf ekkert allt of fínlega til kynna að peningamagni í umferð væru settar þrengri skorður en ímyndunarafl forsætisráðherrans í þeim efnum.

Óþarfi er að rekja söguna síðan, en þó að ríkisskuldavandi Bretlands jafnist á engan hátt við það sem gerist sunnar í Evrópu, þá er hann tröllaukinn samt. Sumir telja að einmitt hann hafi verið helsti sporinn í síðu Íhaldsflokksins og Frjálslynda demókrataflokksins um að mynda samsteypustjórn; verkefnið þyldi enga bið, hvað þá uns kosið væri að nýju. Ekki síst ef það þýddi að Verkamannaflokkurinn sæti í starfstjórn þangað til.

Leiðtogar stjórnarinnar, þeir David Cameron forsætisráðherra og Nick Clegg varaforsætisráðherra, hafa sagt fullum fetum að brýnasta verkefni þeirra sé að ná fjárlagahallanum niður. Hann er talinn nema um £157 milljörðum, sem á gengi dagsins er um 30 billjónir íslenskra króna, þrjátíuþúsund milljarðar. Það eru liðlega 11% af vergri landsframleiðslu og hefur hallinn aldrei verið meiri á friðartímum.

Hálfnað verk þá hafið er

Í fyrri viku kynnti George Osborne fjármálaráðherra fyrstu sparnaðaráform ríkisstjórnarinnar, en þau fólust í um milljarða punda niðurskurði. Allir gera sér ljóst að það hrekkur skammt og miklu, miklu betur má ef duga skal. Með þessu var Osborne hins vegar að senda markaðnum skilaboð um að stjórnin tæki vandann alvarlega, að hún gæti tekið erfiðar ákvarðanir og að hún gæti unnið hratt. Þau skilaboð voru móttekin, markaðir sefuðust nokkuð fyrir vikið.

Af niðurskurðinum nú má hins vegar draga ýmsar ályktanir um það sem koma skal. Líkt og báðir flokkar höfðu sagt í kosningabaráttunni ætla þeir ekki að skerða framlög til heilbrigðismála eða menntamála. Sem þýðir auðvitað að annars staðar þarf niðurskurðurinn að vera meiri. Þessar áherslur eru ekki víðsfjarri þeim söng, sem íslenskir kjósendur hafa heyrt frá stjórnmálamönnum, en í Bretlandi tönnlast menn ekki síður á að markmið aðhaldsaðgerðanna sé bæði sparnaður og verndun „grunnþjónustunnar“, þó ekki gangi mönnum betur að skilgreina nákvæmlega hvað í því felst. Fjárframlög til heilbrigðiskerfisins hafa þannig stigaukist á síðustu árum en án þess að þjónusta eða heilbrigði landsmanna hafi tekið neinum framförum. Vöxturinn hefur allur verið í yfirbyggingunni, en ríkisstjórnin virðist ekki hafa dug til þess að takast á við hana.

Í því felst stór hluti vanda stjórnarflokkanna. Frjálslyndir gagnrýndu Verkamannaflokkinn oft frá vinstri í umræðum um ríkisútgjöld og íhaldsmenn voru litlu skárri, kappsamir sem þeir voru til þess að reka af sér slyðruorðið sem kaldrifjaðir og skeytingarlausir aurapúkar með andstyggð á velferðarkerfinu. Þeir féllust því á umræðugrundvöll Verkamannaflokksins og eiga erfitt með að komast upp úr því farinu nú. Það er kannski hinsta arfleifð Gordons Brown.