Margir þekkja Facebook-síðuna Brask og brall, þar sem fólk selur nánast allt á milli himins jarðar. Nýjasta æðið þar eru smákökur fyrir jól og áramót.

Nú hefur hagsýn kona auglýst sörur til sölu með skilaboðunum: „Sörur til sölu. Er farin að taka við pöntunum fyrir áramótin. Vinsamlegast sendið pm".

Miðað við svörin, sem hún hefur fengið við auglýsingunni, falla sörurnar vel í kramið því fólk er að panta allt frá 10 stykkjum upp í 100. Konan setti auglýsinguna á Brask og brall-síðuna annan í jólum og á tæpum sólarhring hafði hún fengið pantanir upp á tæpar 1.000 smákökur. Er þá bara verið að telja pantanir sem hún fékk í ummælum (e. comment) við auglýsinguna en auk þess voru margir sem sögðust hafa sent pöntun í gegnum persónuleg skilaboð. Þar að auki seldi hún sörur fyrir jól þannig að líklega má gera ráð fyrir að hún hafi selt nokkur þúsund sörur yfir hátíðarnar.

Ef konan hefur selt 1.000 smákökur á tæpum sólarhring nú í byrjun vikunnar þá þýðir það að hún hefur fengið 100 þúsund krónur greiddar, því hver smákaka kostar 100 krónur. Ágætis viðskipti það. Ekki fylgir sögunni hvort fólk fái nótu fyrir viðskiptunum.