*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Fjölmiðlapistlar 9. júní 2018 13:43

SOS (Spurt og svarað)

Það var hins vegar frekar sérstakt, að fyrsta spurning Boga og raunar allar snerust um embættisfærslu ráðherrans.

Andrés Magnússon
Ríkisútvarpið
Haraldur Guðjónsson

Skömmu fyrir kosningar kom sæmilega stór frétt, sem samt fór frekar lítið fyrir. Þar staðfesti Hæstiréttur dóm Landsréttar í sakamáli manns, sem hafði verið dæmdur í 17 mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot, en hann fól þó ekki síður í sér að viðkomandi dómari væri hæfur til að dæma í Landsrétti og raunar þrír Landsréttardómarar aðrir. Fram höfðu komið efasemdir um það vegna aðferðarinnar við skipun dómaranna, ekki aðeins af hálfu lögmanns sakamannsins heldur einnig hjá stjórnarandstöðunni á Alþingi, sem lagði af því tilefni fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Hún var felld.

Þegar dómurinn svo var birtur, var rétt að segja vel frá því, en í kvöldfréttum fékk Bogi Ágústsson dómsmálaráðherra til þess að sitja fyrir svörum í beinni útsendingu í miðjum fréttatíma. Það er ekki mjög algengt, en góð leið til þess að draga svona fréttir fram og færa nær áhorfendum.

Það var hins vegar frekar sérstakt, að fyrsta spurning Boga og raunar allar, sem eftir fylgdu, snerust um embættisfærslu ráðherrans en ekki í nokkru um efni málsins, dómsniðurstöðu eða afleiðingar. Enn einkennilegra var þó að í þessu viðtali, sem var innan við 4 mínútna langt, tókst Boga að grípa a.m.k. 15 sinnum fram í fyrir Sigríði, sem þurfti að taka á sig nokkra rögg til þess að geta lokið svörum við þeim 4-5 spurningum, sem fyrir hana voru lagðar.

Þetta var kannski sérstaklega skrýtið vegna þess að Bogi er annálað prúðmenni og skapstillingarmaður. Því verður ekki trúað að þar að baki búi pólitík og ekki hefur neitt komið fram um að Bogi tengist einhverjum málsaðilum vinaböndum eða ámóta. Svo kannski honum sé einfaldlega heitt í hamsi um þetta mál. En þá hefði hann líka átt að varast það sérstaklega að missa sig í þessa óvanalegu ákefð, en ekkert í svörum ráðherrans átti að koma nokkrum úr jafnvægi.

                                                               ***

Með ofangreindu er ekki verið að draga úr nauðsyn þess að blaða- og fréttamenn spyrji þeirra spurninga, sem þeir telja mikilvægastar, og það er engin ástæða til þess að sýna yfirvaldinu einhverja stimamýkt.

En það er einnig nauðsynlegt að sýna fyrirsvarendum þá kurteisi að leyfa þeim að svara. Það snýr raunar enn frekar að áhorfendum, að þeim sé sýnd sú tillitssemi, að svarendur geti og þurfi að svara þeim spurningum sem að þeim er beint, án frammíkalla eða truflana, hvort heldur er frá fréttamönnum eða öðrum gestum í útsendingu.

Auðvitað þarf stundum að halda mönnum við efnið. Stundum villast viðmælendur af leið og stundum svara þeir vísvitandi öðrum spurningum en að þeim var beint. Þá er sjálfsagt að beina þeim aftur á rétta braut og oftast er það hægt án mikillar áreynslu.

Þarna var því í raun ekki að heilsa, heldur virtist Bogi bara svona almennt óhress með ráðherrann eða fékk ekki þau svör, sem hann helst hefði viljað heyra. Í því lenda allir blaða- og fréttamenn öðru hverju. Jafnvel oft og iðulega. Spurningar þeirra eiga samt ekki að taka mið af því, heldur hagsmunum og upplýsingu almennings. Þar eiga skoðanir og persónuleg afstaða blaðamanna ekkert erindi, hvort sem þeir eru innst í hjarta voða ánægðir með sinn mann eða í massívri fýlu við fjandans manninn.

Af því að áhorfendur varðar ekkert um það.

                                                               ***

Aðeins um eftirkosningafréttir, sem stundum virðast ámóta innihaldsrýrar og fyrirkosningafréttir. Af sveitarstjórnarkosningum er í sjálfu sér lítið að segja nema úrslitin þegar þau koma og eftir atvikum fregnir af meirihlutamyndun þegar þær koma. Flest annað er frekar ómarkvisst mas, svona næstum eins og íþróttalýsingar.

Þarna ræðir samt um stórviðburði og afleiðingarnar skipta almenning miklu, svo það er lagt mikið upp úr fréttum af því öllu. Bæði til þess að vera örugglega á staðnum þegar tíðindin loks gerast, en einnig er þetta talsverð vertíð hjá fjölmiðlum, svo stundum er aðeins verið að tala fréttirnar upp eins og gengur.

Þetta þekkja menn af öllum biðfréttunum um meirihlutamyndun í helstu sveitarfélögum, þar sem sífellt er farið með sömu tuggurnar um bjartsýni og að vel gangi, dögum saman, án þess að það sé þó nokkuð hægt að segja, en öðru hverju er liðinu smalað brosandi í myndatöku því til sönnunar að allir séu vinir. Jafnvel þegar því er ekki þannig farið og samstarfið að brotna, eins og við höfum nýleg dæmi um.

Allt er það eins banalt og fyrirsjáalegt og hugsast getur (þó tapsárir minnihlutar geti stundum stundum toppað það), en þó þetta sé leiðinlegt og erfitt að ímynda sér hvað annað sveitasrstjórnarmennirnir ættu að segja, þá þarf þetta samt að vera á „record“, því fjölmiðlar hafa m.a. það hlutverk að skrásetja samtímann. En kannski það sé óþarfi að skýra frá því öllu sem stórfréttum.

Þannig hefur Ríkisútvarpið sagt nokkrar fínar samantektarfréttir um meirihlutamyndanir og flokkadrætti í hinum ýmsu sveitarfélögum. Auðvitað mætti gera langar og ýtarlegar innansveitarkrónikur um það allt, en þá myndu þeir einir hlusta, sem til þekkja. Útdráttur er helsta og oftast besta birtingarmynd frétta.

                                                               ***

Það gladdi fjölmiðlarýni mikið að lesa frétt af því á vef Seðlabankans, að bankinn og Már formaður hefðu fengið norræn bókmenntaverðlaun í flokki fræðirita. Í rannsókn á vegum norska seðlabankans hlutu fundargerðir peningastefnunefndar sem sagt háa einkunn fyrir læsileika, þær þóttu blessunarlega stuttar og þar af leiðandi ekki jafnóbærilega leiðinlegar og aðrar sambærilegar fundargerðir. Er því jafnvel haldið fram að mannréttindadómstóll Evrópu gæti margt um það lært hjá peningastefnunefnd hvernig skrifa skuli knappar og auðskiljanlegar fundargerðir.

Nú blasir við að hinir norsku fundargerðasérfræðingar eru ekki miklir íslenskumenn og hafa tæplega lagt mat á stíl og framvindu, en þeir kunna að meta skýrleikann. Um það kunna þó að vera skiptar skoðanir. Minna má á að Alan Greenspan, þáverandi Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, baðst eitt sinn afsökunar á ummælum sínum, sem tengdust efnahag og væntingum. Hann hefði alls ekki verið nógu óskýr í orðavali og alls ekki ætlunin að áheyrendur gætu ráðið hvað hann væri að fara.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is