Bókin Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar kemur út eftir viku. Í bókinni, sem skrifuð er af Einari Kárasyni, er fjallað um viðskiptasögu Jóns Ásgeirs.  Í henni segir Jóns Ásgeir sjálfur sína sögu og svarar fyrir ýmis mál en auk þess byggir bókin á viðtölum við fjölmarga aðra, sem og því sem sagt hefur verið og ritað um Jón Ásgeir og hans fyrirtæki í gegnum tíðina.
Í Viðskiptablaðinu í dag eru birt kaflabrot úr bókinni.

Jón Ásgeir og Baugur komu fyrst nálægt fjölmiðlarekstri vorið 2002 þegar Fréttablaðið, sem á þeim tíma var að lognast út af, var keypt af feðgunum Eyjólfi Sveinssyni og  Sveini R. Eyjólfssyni. Í bókinni segir Jón Ásgeir að innan skamms hafi blaðið farið að standa undir sér "og við beindum auðvitað okkar auglýsingum í auknum mæli þangað."

Nokkru seinna Keypti Jón Ásgeir Norðurljós, fyrirtækið sem rak Stöð 2, Bylgjuna og fleiri fjölmiðla. Það keypti hann af Jóni Ólafssyni, sem var kominn í vandræði og bankar farnir að sækja hart að honum.

Jón Ásgeir keypti reyndar ekki bara Norðurljós því í bókinni segir: "Úr varð að ég keypti hreinlega allt sem hann ætti á Íslandi, íbúðarhúsið hans líka og fleiri eignir; mestar að virði voru lóðirnar sem hann átti í svokölluðu Arnarneslandi, og ég gerði að því er mér fannst mjög góð kaup.“

Jón Ásgeir: „Ég var búinn að kaupa allt af Jóni Ólafssyni en þurfti svo að gera málamiðlanir með bönkunum út af öllu þessu. Norðurljós þótti mikið „presence brand“, það var litið svo á að það væri miklu stærra en það var. Sigurður G. Guðjónsson var forstjóri, en svo var fyrirtækið sameinað Fréttablaðinu og stofnað fyrirtækið Dagsbrún og Gunnar Smári Egilsson seldi mér þá hugmynd að hann sjálfur ætti að verða forstjóri þess, og þá var Sigurði G. sagt upp. Það voru margir ósáttir innan Dagsbrúnar, þarna var Fréttablaðsfólkið versus Norðurljósafólkið, þetta var mjög erfiður kúltúr.“

[...]

Jón Ásgeir: „Ég var lítið inni í þessu, sérstaklega ljósvakamiðlunum; ég skildi blaðið betur, ég hafði rifið það upp. Ég var með áttatíu og fjögur fyrirtæki á minni könnu á þessum tíma og var ekki að kafa í þetta. Þetta fyrirtæki, Dagsbrún, var líka tækni- og símafélag því að við höfðum keypt Vodafone og það var inni í þessu. Hugmyndin á bakvið það var á undan sinni samtíð, en virkaði ekki þá; núorðið er síma- og sjónvarpsrekstur víðast að renna saman.

En Gunnar Smári var alveg að missa tökin, og það næsta sem var fundið uppá var að stofna Nyhedsavisen í Danmörku. (Sem var gefið út 2006–2008.) En það var engin heimavinna unnin. Það var tilkynnt digurbarkalega á blaðamannafundi um stofnun blaðsins löngu áður en það átti að fara að koma út. Og gefið í skyn að samkeppnin mætti fara að vara sig. Sem þýddi að hún hafði nægan tíma til að undirbúa það, starta sínum eigin fríblöðum og svo framvegis. Svo höfðu menn ekkert hugsað út í það að þótt það sé yfirleitt opið að utan að póstkössum og lúgum hér á landi, þá þarf lykla til að komast að þeim víðast hvar í Danmörku. Gunnar Smári lét sig á endanum hverfa og tapið var gígantískt, og líka á öðru fríblaði, Boston Now vestanhafs, þótt ekki væri það sambærilegt við tapið í Danmörku. Eftir hrun var Gunnar Smári síðan fljótur að byrja að drulla okkur út í sínum ummælum og skrifum. Og svo er hann sósíalistaforingi í dag, maður sem í þá daga nennti helst ekki til Danmerkur nema að fá undir sig einkaþotu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .