Sósíalíski flokkurinn á Spáni, flokkur Pedro Sánchez forsætisráðherra, varð stærsti flokkurinn í þingkosningum sem fram fóru í landinu í gær með 29% atkvæða og bætti flokkurinn við sig 37 sætum og 6 prósentustigum.

Náðu sósíalistar þar með 123 sætum af 350 sætum á þinginu, sem gefur honum tækifæri til að mynda meirihluta án aðkomu katalónískra og baskneskra sjálfstæðissinna.

„Sósíalíski flokkurinn hefur unnið þingkosningarnar, og þar með hefur framtíðin sigrað og fortíðin tapað,“ hrópaði leiðtogi flokksins, Pedro Sánchez til fagnandi stuðningsmanna sinna, þegar úrslitin komu í ljós.

Hægri vængurinn klofinn í þrennt

Á sama tíma virðist klofningur hægrivængsins í spænskum stjórnmálum vera orðin alger, en spænski þjóðarflokkurinn, sem verið hefur sterkasti miðhægriflokkurinn í landinu missti helming þingsæta sinna, fór úr 137 niður í 66, sem er versta niðurstaða flokksins í sögunni.

Missti hann bæði fylgi til frjálslynda miðjuflokksins Ciudadanos, eða Borgaraflokksins, sem náði meiri árangri en búist var við eða 15,9%, sem gefur þeim um 57 sæti, sem er aukning um 25 sæti. Einnig missti flokkurinn fylgi til nýs flokks hægra megin við sig, Vox sem lýst hefur verið sem öfgaflokki, en hann hlaut 10,3% atkvæða og 24 sæti á þingi.

Saman hafa þessir þrír flokkar 147 sæti, en ekki virðist sem þeir hafi neinn sérstakan samstarfsgrundvöll né augljósa samstarfsaðila sem þeir gætu myndað meirihluta með.

Róttækir vinstrimenn töpuðu

Samstarfsflokkur Sósíalista í núverandi ríkisstjórn, róttæki vinstriflokkurinn Podemos tapaði 29 þingsætum, fékk 14,3% atkvæða en hélt 42 þingsætum.

Nú gæti Sánches reynt að halda því samstarfi áfram, en samanlagt eru flokkarnir með 166 sæti, en hann þyrfti þá að fá inn í það samstarf flokka aðskilnaðarsinna Baska og aðra svæðisbundna samstarfsflokka.

Hann gæti það án þess að þurfa að semja við aðskilnaðarsinnaða Katalóníumenn sem fengu 22 sæti á þinginu, en miklar deilur hafa verið í landinu undanfarin ár um kröfur þeirra um að fá að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.

Með meirihluta ef semur við frjálslynda miðjumenn

Einnig gæti forsætisráðherrann reynt að semja við borgaraflokkinn Ciudadanos, en saman væru flokkarnir með hreinan meirihluta, en leiðtogi hans, Albert Rivera, hafði margítrekað útilokað samstarf með Sósíalistum meðan á kosningabaráttunni stóð, og eru samskipti leiðtoganna ekki sögð góð að því er FT segir frá.

Einnig gæti hrun Þjóðarflokksins ýtt undir metnað hans fyrir því að borgaraflokkurinn taki yfir stöðu hans sem stærsta flokksins á hægri væng stjórnmálanna, sem myndi vera í hættu ef hann færi í ríkisstjórn með sósíalistum.

Bara byrjunin á Reconquesta

Þó Vox flokkurinn hafi ekki náð þeim 35 sætum sem skoðanakannanir höfðu búist við, þá er það ákveðinn sigur fyrir flokkinn að komast inn á þing, en hann hefur vaxið hratt síðan hann komst fyrst á sjónarsviðið í desember með því að komast inn á þing í héraðskosningum í Andalúsíu.

„Þetta er bara byrjunin,“ sagði Santiago Abascal, leiðtogi flokksins á Margrétar Thatcher torgi í miðri Madrid. „Við sögðum ykkur frá byrjun að við værum að byrja endurheimtina (Reconquest) og það er það sem við höfum gert.“