Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir ljóst að ekki verði af áformum um skandinavískar lausnir á vinnumarkaði líkt og áður hafði verið stefnt að. „Nú er búið að henda því alveg út og farið í hina áttina. Í staðinn fyrir að tala um samfélagslegar lausnir þá séu þeir sem kalla sig sósíalista að tala um að lækka skatta,“ segir Þórólfur.

„Menn ætla að létta skattbyrðinni af mjög mörgum en svo á að koma inn með miklar félagslegar lausnir, það á að hækka bótagreiðslur í lífeyriskerfinu, það á að leggja mikið fé í húsnæðismálin og svo framvegis og hvernig á að standa undir því?“ spyr Þórólfur. Kröfugerðirnar gangi ekki fyllilega upp þó Þórólfur taki þeim með þeim fyrirvara að verið sé að gera ítrustu kröfur í upphafi kjarasamninga.

Kröfur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og VR fyrir komandi kjaraviðræður fela í sér að útborguð laun þeirra sem eru á lægstu laununum hækki um 90% á næstu þremur árum. Þau gera bæði kröfu um að lægstu laun verði 425 þúsund krónu á mánuði árið 2021 og að persónuafsláttur verði hækkaður svo að lægstu laun verði skattfrjáls. Á móti verði fjármagnstekjuskattur og skattar á hærri launatekjur hækkaðir. Kjaraviðræður SGS og Samtaka atvinnulífsins hófust formlega á þriðjudaginn.

Eigi hugmyndir verkalýðsfélaganna í skattamálum að ganga eftir þá þyrfti að hækka skatta með öðrum hætti segir Þórólfur. „Þá þarftu að hækka jaðarskattana annars staðar.“ Á Íslandi séu þegar dæmi um yfir 90% jaðarskatta meðal lífeyrisþega. „Þú verður að líta á skattkerfið og tilfærslukerfið sem eina heild og það hefur ekki verið gert.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .