*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 8. janúar 2017 15:14

Sósíalisti, liberalisti og anarkisti

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, skilgreinir sig sem sósíalista, liberalista og anarkista.

Bjarni Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Ég myndi kalla mig sósíalista frekar en krata þótt ég sé lýð­ræðissinni,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. Ögmundur hætti á þingi nú í haust eftir að hafa setið þar allt frá árinu 1995, fyrst sem þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra og síðar fyrir Vinstri-græn. „Ég er sósíalisti sem vill jöfnuð og eins mikinn jöfnuð og mögulegt er. Ég vil negla það inn í samfélagið og í alla okkar vitund og helst löggjöfina líka. Ég er anarkisti, sem er mjög gagnrýninn á allt vald að ofan. Sumir anarkistar halda að þetta snúist um að henda grjóti í fólk, en ég hef aldrei upplifað það þannig. Í þriðja lagi er ég líberalisti í anda Johns Stuart Mill, sem sagði að hver maður ætti að vera frjáls svo lengi sem hann skaðar ekki aðra. Þannig að ég hef alltaf viljað hafa rúm fyrir einstaklinginn.“

Ögmundur segist ekki sjá neina mótsögn í þessum þremur þáttum persónuleika síns. „Ég vil sannfæra fólk um ágæti minna hugmynda, en ekki neyða það til þess með ofbeldi. Ég er á móti öllu ofbeldi. Ég vil til dæmis setja það í lög að þegar ríkið semur við sína starfsmenn verði bundið í lög að sá lægst launaði fái að minnsta kosti þriðjung þess sem sá hæst launaði fær. Þetta er vissulega valdboð í ákveðnum skilningi, en við sammælumst um þau lög sem við stjórna landinu. Það á hins vegar ekki að neyða samfélagsgerð upp á þjóð sem ekki vill hana, en við getum með lögum og reglum komið í veg fyrir að einhverjir taki um of til sín.“

Býr á gamla rabarbarareitnum

Ögmundur er Vesturbæingur og er hús hans á því sem áður var jörð foreldra hans – nánar tiltekið býr hann þar sem rabarbaragarð­ urinn var. „Ég gekk í MR og er sagnfræðingur frá háskólanum í Edinborg, þar sem ég lagði stund á sagnfræði og stjórnmálafræði. Ég gef alltaf haldið tengslum við sagnfræðina og var allt fram á síðustu ár stundakennari við sagnfræðideild Háskóla Íslands. Ég fór svo að vinna á ríkisútvarpinu sem fréttamaður árið 1978, sem segja má að sé sagnfræðingur á hlaupum. Ég var þar í tíu ár, eða til ársins 1988. Ég fór að skipta mér af verkalýðspólitík strax og ég kom inn á vinnumarkaðinn, var formaður starfsmannafélags sjónvarpsins, settist í stjórn BSRB og var formaður Bandalagsins frá árinu 1988 þar til ég tók við emb­ ætti heilbrigðisráðherra árið 2009.“

Ögmundur segir að þetta tvöfalda hlutverk, að vera bæði þingmaður og formaður stéttarfélags, hafi á stundum verið gagnrýnt, en hann hafi aldrei gefið mikið fyrir þá gagnrýni. „Ég naut alla tíð stuðnings félaga minna innan BSRB. Bandalagið var á tímum rammpólitískt og tók afstöðu gegn einkavæðingu og með vatninu, en þetta voru málefni sem nutu stuðnings fólks úr öllum flokkum. Ég gerði þó eitt þegar ég tók fyrst sæti á Alþingi fyrir framboð Alþýðubandalagsins og óháðra árið 1995. Þá hætti ég að taka laun sem formaður BSRB, þannig að ég var aldrei háður Bandalaginu í fjárhagslegum skilningi sem þingmaður. Þetta skipti sjálfan mig máli og ég held að það hafi skipt aðra máli.“

Hann segist hafa snúist til vinstrimennsku á háskólaárunum. „Faðir minn var Sjálfstæðismaður og móðir mín var, þrátt fyrir að vera óflokksbundin, ein róttækasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún var svo róttæk að á meðan bræður hennar, sem voru miklir kommúnistar og verkalýðsbaráttumenn, kusu þá flokka sem voru lengst til vinstri á hverjum tíma þá studdi hún Eystein Jónsson og sagði það vera vegna þess að þar færi maður sem væri á undan sinni samtíð í umhverfismálum. Og svo þegar Kvennaframboðið kom fram í kringum 1980 þá spurði hún mig hvað ég ætlaði að kjósa. Ég svaraði því til að líklega myndi ég kjósa Fylkinguna eða þann flokk sem þá stóð lengst til vinstri. Þá sagði móðir mín: „Mikið ertu íhaldssamur Ögmundur minn. Þú ættir að kjósa þann sem vill fella valdastólana, en ekki þá sem vilja setjast í þá.“

Ég fór að ráði móður minnar í þessu eins og svo mörgu öðru og kaus Kvennaframboðið. Við því tók svo Kvennalistinn, sem var kvótaflokkur, sem vildi jafnmargar konur og karla uppi á valdastólunum. Ég hef aldrei verið fyrir kvótakerfi, hvort sem er í atvinnulífinu eða í pólitíkinni, þannig að ég sagði skilið við flokkinn. Þegar það kom til tals um miðjan tíunda áratuginn að ég færi í þingframboð var ákveðið að láta verða af kosningabandalagi Alþýðubandalagsins og óháðra. Mér fannst þetta alltaf óþjált nafn, enda hef ég aldrei verið neitt sérstaklega óháður mínum skoð­ unum. Ég gerði þetta svona í bland af kurteisi við BSRB, enda hafði ég ekki gert grein fyrir þessum áformum mínum á þingi Bandalagsins. Reyndar voru mun fleiri en ég úr röðum óháðra og var þriðjungur frambjóðenda á listanum í Reykjavík úr þessum hópi.“

Þetta er einungis brot úr ítarlegu viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, við Ögmund Jónasson. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér.