*

mánudagur, 1. júní 2020
Erlent 17. júní 2019 19:01

Sotheby’s slegið á 3,7 milljarða

Samþykkt yfirtökutilboð í uppboðshúsið var 61% yfir dagslokagengi hlutabréfa við lokun markaða á föstudag.

Ritstjórn
Patrick Drahi er einn ríkasti maður heims.
epa

Fransk-ísrelski fjárfestirinn Patrick Drahi hefur samþykkt að kaupa uppboðshúsið Sotheby’s fyrir 3,7 milljaraða dollara en greint var frá kaupunum fyrr í dag. Mun Drahi greiða 57 dollara á hlut fyrir Sotheby’s sem verður í kjölfarið tekið af hlutabréfamarkaði. Tilboð Drahi er um 61% hærra en hlutabréfaverð fyrirtækisins stóð í við lokun markaða síðastliðinn föstudag.

Drahi er einn ríkasti maður heims en hann situr í 190. sæti á lista Forbes en hann er metinn á um 9,3 milljarða dollara. Hann á um 60% hlut í fjarskiptasamstæðunni Altice en hann er einn af stofnendum þess félags. 

Í tilkynningu vegna yfirtökunnar segir Tad Smith forstjóri Sotheby's að Drahi sé einn af virtustu frumkvöðlum heims og fyrir hönd fyrirtækisins er hann boðin velkominn í fjölskylduna. Þá sagði hann að kaupinn muni gera fyrirtækinu auðveldara fyrir að halda áfram með vaxtaáform sín og að fyrirtækið væri í frábærum höndum næstu áratugina með Drahi sem eiganda.