Aðalmeðferð í máli Saga Capital Fjárfestingarbanka gegn Insolidum, eignarhaldsfélagi í eigu Daggar Pálsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, er áformuð hinn 9. janúar næstkomandi. Málsaðilar hafa lítið sem ekkert viljað láta hafa eftir sér um málið.

Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst keypti Insolidum hlut í Spron á markaðsvirði fyrir nokkur hundruð milljónir, áður en Spron var skráð á markað, með láni frá Saga Capital og veði í bréfunum. Eftir að bréfin féllu í verði mun Saga Capital hafa farið að ganga að veðsetningunni. Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður Insolidum vildi það eitt segja í samtali við Viðskiptablaðið í gær að málsaðilar litu á þetta sem einkamál sem ekki ætti erindi í fjölmiðla.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember. Bréfin í Spron hafa lækkað umtalsvert frá því félagið var skráð á markað hinn 23. október síðastliðinn. Fyrstu viðskipti fóru fram á genginu 18,9. Gengið við lok markaðs á fimmtudag var 8,26.