Skuggabankastarfsemi hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár. Skilgreining á hugtakinu „skuggabankastarfsemi“ hefur reyndar verið á reiki hérlendis. Í sinni einföldustu mynd er hægt að skilgreina skuggabankastarfsemi sem samheiti yfir miðlun fjármagns, sem fer fram utan hins leyfisskylda viðskiptabankakerfis. Þannig stunda ýmsir fjárfestingarsjóðir skuggabankastarfsemi með því einfaldlega að selja fagfjárfestum skuldabréf og jafnvel eru til þeir sem telja að hluti af starfsemi íslensku lífeyrissjóðanna falli undir þessa starfsemi. Nokkuð hefur verið fjallað um þetta hérlendis. Meðal annars hefur Fjármálaeftirlitið gert það sem og Seðlabankinn.

Hvað er P2PL?

Sá angi skuggabankastarfseminnar sem nánast ekkert hefur verið fjalla um hérlendis er P2PL. P2PL er samheiti yfir sérhæfð lánafyrirtæki, sem starfa á netinu. Þetta eru fyrirtæki sem lána einstaklingum eða fyrirtækjum fé án milligöngu banka. Í raun eru þetta netfyrirtæki ,sem á ensku eru kölluð peer-to-peer lenders og skammstöfuð P2PL eða bara P2P. Ástæðan fyrir því að lítið sem ekkert hefur verið fjallað um þessi fyrirtæki hér er að ekkert svona fyrirtæki er með starfsemi á Íslandi.

Jón Finnbogason, forstöðumaðurskuldabréfa hjá Stefni, flutti á dögunum erindi um skuggabankastarfsemi á fundi Félags löggiltra endurskoðenda. Þar fjallaði hann meðal annars um P2PL-fyrirtækin.

Bankarnir undirbjuggu jarðveginn

Í grófum dráttum þá starfa P2PLfyrirtækin þannig að þau leiða saman fjárfesta og lántakendur. Í þessari starfsemi er í raun enginn milliliður heldur bara vefsíða, þar sem þú getur annaðhvort sótt um lán eða lagt inn fé til lánveitingar. Í raun er þetta ekkert ólíkt eBay, sem leiðir saman kaupendur og seljendur vöru á einni vefsíðu. Þetta fyrirkomulag er töluvert ólíkt hefðbundinni bankastarfsemi því þegar bankalán er tekið er bankinn milliliður, sem innheimtir vaxtamun á inn- og útlánum. Þessi vaxtamunur hefur almennt aukist töluvert eftir fjármálakrísuna 2008 og á sama tíma hafa bankar verið tregir til að lána. Með þessu má segja að bankarnir sjálfir hafi undirbúið jarðveginn fyrir þessi nýju P2PL-fyrirtæki. Þau hafa fengið súrefni og dafna sem aldrei fyrr. Fjöldi þeirra á heimsvísu eykst nú ár frá ári í takti við lögmálið um framboð og eftirspurn.

Miðað við vöxtinn í P2PL-geiranum er augljóslega pláss fyrir þessi fyrirtæki á markaðnum. Hefðbundnir viðskiptabankar gegna enn lykilhlutverki við miðlun fjármagns en skilaboðin til þeirra eru skýr. Þeir verða að auka skilvirkni og minnka tilkostnað ef þeir ætla að halda sínum hlut á neytendalánamarkaðnum. Umsýslan í kringum lánveitingar P2PL-fyrirtækja er augljóslega miklu minni og rekstrarkostnaðurinn þar af leiðandi líka. Bankar eru að taka 3 til 4% í vaxtamun meðan P2PL-fyrirtækin eru kannski að taka 1%. Á tækniöld geta hlutirnir gerst hratt og agnarsmá fyrirtæki orðið stór á skömmum tíma. Það er líka alveg ljóst að fyrir hagkerfið í heild sinni er þessi þróun jákvæð því verið er að draga úr kostnaði vegna milliliða.

Lending Club metið á 1.100 milljarða

Það urðu ákveðin tímamót fyrir mánuði síðan þegar Lending Club varð fyrsta P2PL fyrirtækið til að verða skráð á markað í Bandaríkjunum. Skráningin gekk ótrúlega vel og er fyrirtækið í dag metið á ríflega 8 milljarða dollara eða um 1.100 milljarða króna. Þetta þýðir að aðeins 14 bandarískir bankar eru metnir á hærri fjárhæð en Lending Club og 820 bankar eru minna virði. Þau fyrirtæki hafa flest verið starfandi í tugi ef ekki hundruð ára. Lending Club var stofnað árið 2007. Áður en fyrirtækið var skráð á markað hafði það lánað samtals 5 milljarða dollara eða 650 milljarða króna. Sú upphæð jafngildir verðmæti allra útistandandi verðtryggðra húsnæðislána Íbúðalánasjóðs til einstaklinga. Það sem meira er 20% þessara lána voru veitt á öðrum ársfjórðungi 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .