Rafbílaframleiðandinn Rivian, sem bæði Ford og Amazon hafa fjárfest í, hefur fengið fjármagn frá fjárfestingafélaginu T. Rowe Price andvirði 2,5 milljarða dollara, um 353 milljarða króna.

Félagið hyggst hefja framleiðslu á pallbílum og jeppum á næsta ári og því veita Tesla samkeppni. Ravian er ekki eina félagið þar sem rafbílaframleiðandinn Nikola er einnig að hefja framleiðslu á pallbílum á næsta ári ásamt því að skrá sig á markað.

Rivian hefur nú fengið um 6 milljarða dollara í fjármögnun en auk fyrrnefndra félaga hefur Facebook, Barion og BlackRock fjárfest í því. Reuters greinir frá.

Félagið var stofnað árið 2007 en töluverðar tafir hafa verið á framleiðslu í gegnum árin. Að auki hefur COVID leitt til þess að verksmiðjum þurfti að loka tímabundið. Samt sem áður er um mikla samkeppni fyrir aðila sem nú þegar eru á markaði en Rivian hefur meðal annars samið við Amazon um að framleiða 100 þúsund sendiferðabíla. Verkefnið er liður Amazon í að rafmagnsvæða bílaflota sinn.

Hlutabréfaverð Tesla hafa verið í miklum uppgang en bréf félagsins kosta nú um 1,400 dollara hvert og hafa hækkað um tæplega 40% síðasta mánuðinn.