Sprotafyrirtækið X-Mist Scandinavia, sem annast heildsölu X-Mist sótthreinsivaranna hér á landi, var formlega stofnað í desember á síðasta ári. Í dag starfa fjórir einstaklingar hjá fyrirtækinu sem öll eru jafnframt hluthafar, þar á meðal þau Eyrún Anna Tryggvadóttir, markaðsstjóri, og Ingólfur Þórarinsson, framkvæmdastjóri.

X-Mist vörurnar eru skoskar og hafa verið í þróun frá árinu 2017. Þær komu til landsins fyrir rúmum mánuði og fást nú í öllum helstu dagvöruverslunum vítt og breitt um landið. Vörurnar eru seldar í Krónunni, verslunum Samkaupa, Fjarðarkaupum, Melabúðinni, N1, Byko, Bauhaus og víðar, en Takk hreinlæti sér um lager og dreifingu.

Eyrún Anna segir ánægjulegt hve vel hafi gengið að koma vörunum í almenna sölu um allt land á svo skömmum tíma, en nú einbeiti hópurinn sér að fyrirtækjamarkaðnum.

„Við bjóðum frábæra lausn fyrir fyrirtæki sem vilja spara kostnað, tíma og einfalda sótthreinsun á vinnustaðnum. Með því að þrýsta á einn hnapp dreifist úðinn um rýmið og allt verður sterílt, úðinn sótthreinsar snertifleti auk þess að veita loftvörn sem er virk í sjö daga. Við erum nú þegar farin að vinna með mörgum flottum fyrirtækjum sem vilja gera vel þegar kemur að sótthreinsun. Fylgi fyrirtækin ákveðnum skilyrðum geta þau í kjölfarið fengið sérstaka X-Mist vottun."

Sóttheinsitafla vekur áhuga fiskvinnsla

Eyrún segir virkni X-Mist varanna vera hreint ótrúlega. „Rannsóknir sýna að úðinn er í sótthreinsiflokki log 6 sem þýðir að hann drepur yfir 99,9998 sýkla. Lausnin er algjörlega lífræn og eyðir bakteríum, veirum og öðrum sýklum, meðal annars kórónuveirunni."

Hingað til hafa þrjár vörur úr X-Mist vörulínunni verið fáanlegar hér á landi, sótthreinsiúði fyrir stór rými, sótthreinsiúði fyrir ökutæki og handhægur sótthreinsiúði til daglegra nota sem meðal annars nýtist við sótthreinsun handa og raftækja. Nú stendur til að bæta fjórðu vörunni við vörulínuna, lífrænu sótthreinsitöflunum, X-Tabs. sem hægt er að leysa upp í vatni og úða yfir fleti.

„X-Tabs töflurnar eru einfaldlega leystar upp í vanti og svo er þeim úðað yfir þá fleti sem til stendur að hreinsa. Töflurnar er í sótthreinsiflokki log 7, sem er hæsta mögulega virkni og þýðir að þær drepa 99,99999% sýkla. Í töflunum eru engin eiturefni og þær eru því algjörlega skaðlausar. Töflurnar hafa nýlega hlotið DEFRA vottun í Bretlandi, sem þýðir að þær eru öruggar í návígi við dýr og matvæli. Við sjáum fyrir okkur að töflurnar geti gert stóra hluti í matvælageiranum, meðal annars með því að stuðla að heilnæmi í kringum matvæli. Það sem er sérstaklega spennandi við töfluna er að rannsóknir sýna fram á að hún drepur listeríu og nú þegar eru nokkrar fiskvinnslur að skoða hvort efnið getur nýst þeim til að sporna gegn listeríu," segir Eyrún Anna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um stórhuga uppbyggingu SaltPay, eiganda Borgunar.
  • Bandarískur fjárfestingarisi hyggur á umfangsmiklar fjárfestingar í fjarskiptageiranum hér á landi.
  • Fossar markaðir og ríkið deila um kaupauka fyrir dómi.
  • Forstjóri Deloitte á Íslandi segir frá nýrri alþjóðlegri skýrslu Deloitte sem varpar ljósi á helstu einkenni þrautseigra fyrirtækja.
  • Umfjöllun um áhrif heimsfaraldursins á listageirann.
  • Hulda Pjetursdóttir, sem nýlega gekk til liðs við ráðgjafarfyrirtækið Evris, segir frá skemmtilegum og tilviljanakenndum starfsferli sínum.
  • Týr fjallar um átök dómara.
  • Hrafnarnir eru á sínum stað.