Björn Stefánsson, þekktur sem Bjössi í Mínus, segir að leiklistarbakterían hafi blundað í sér síðan í barnæsku en hann setti þann draum í aftursætið þegar hann byrjaði að tromma í hljómsveitum. Árið 2007 trommaði hann síðan í uppsetningu Björns Hlyns Haraldssonar á Jesus Christ Superstar í Borgarleikhúsinu, þar sem Krummi í Mínus söng hlutverk Krists.

„Ég hugsaði með mér að ég vildi og ætlaði mér að vinna í þessu húsi þó síðar væri. Ég þorði svo sem ekki að ímynda mér að það yrði sem leikari en það var eitthvað við leiklistina og hvernig leikarar vinna sem heillaði mig. Í þeim hóp sem ég tilheyrði í tónlistinni var svo mikið af boðum og bönnum og reglum, en mér fannst leiklistarheimurinn hins vegar bjóða upp á frjálsræði og lifandi starf.“

Var semsagt meira frelsi í leikhúsinu en í rokkhljómsveitinni Mínus?! Bjössi hlær dátt. „Já, eins ótrúlegt og það kann að hljóma fyrir suma. En ekki setja það í fyrirsögn!“

Kom flatt upp á marga

Hann flutti í kjölfarið til Danmerkur ásamt konu sinni og dóttur og sótti um í leiklistarskóla ytra eftir um árs dvöl. „Ég sótti um án þess að láta nokkurn vita, fannst eitthvað skrýtið að vinirnir vissu þetta. En ég man að ég hugsaði með sjálfum mér að ef ég tæki ekki stökkið núna myndi ég aldrei gera það.

Ég var að koma úr tónlistargeiranum og hélt einhvern veginn að maður ætti að fylgja einhverri ákveðinni braut, en síðan rann einfaldlega upp fyrir mér að það skiptir nákvæmlega engu máli hvaða leið maður kýs, maður á bara að fylgja hjartanu. En óneitanlega kom það flatt upp á marga vini mína að ég hefði leiklistardrauma.“

Björn vakti athygli áhorfenda í sjónvarpsþáttaröðinni Rétti III, þar sem hann túlkaði hrakmenni af miklum móð, í kvikmyndinni Austur sætti hann meiri pyntingum en jafnvel áhorfendur hennar þurftu að þola, og nú seinast fékk hann fantagóða dóma fyrir hlutverk sitt í hrollvekjunni Rökkri.

Á þessu leikári leikur hann viðsjárverða æskuþjófinn Gleði-Glaum í Bláa hnettinum í Borgarleikhúsinu, gegnir mikilvægu hlutverki í stórsmellinum Elly, er á fullu að æfa hlutverk sitt í Himnaríki og helvíti sem byggt er á sögu Jóns Kalmans Stefánssonar og leikur einnig á næsta ári í Sýningunni sem klikkar. Næst sést hann á hvíta tjaldinu í kvikmynd Baldvins Zophoníassonar, Lof mér að falla, sem frumsýnd verður á nýju ári. Þar leikur hann eiturlyfjasjúkling sem á að baki langan neysluferil.

„Ég er ofboðslega ánægður með þau tækifæri og verkefni sem ég hef fengið, sérstaklega það traust sem Borgarleikhúsið hefur sýnt mér,“ segir Bjössi. „Í Lof mér að falla leik ég sem sagt þennan karakter á fullorðinsaldri en hann kemur líka við sögu á unglingsaldri. Þetta er harmsaga einstaklings sem því miður á sér raunverulega fyrirmynd í íslensku samfélagi. Hann lenti ungur í neyslu, fór rækilega út af sporinu og er í dag fárveikur sprautufíkill.

Ég hitti hann ekki persónulega en leikstjórinn reyndi að spjalla við hann. Sá fundur endaði þannig að viðkomandi ásakaði hann um að hafa stolið strigaskónum sínum! Ég byggi þessa persónu bæði á því sem ég hef séð og reynt, þó að ég hafi aldrei prófað að sprauta mig og mun aldrei gera. Ég las mér til, spurðist fyrir og horfði á kvikmyndir sem gátu veitt mér innblástur, allt til að skapa sem trúverðugastan karakter. Það er sérkennilegt að rannsaka þetta ferli, fólk sem fer svona á botninn lifir döpru lífi, ef líf skyldi kalla, en um leið ákaflega lærdómsríkt.“

Vil ekkert annað gera

Spurður hvernig hann sjái fyrir sér næstu skref segist Bjössi fyrst og fremst einblína á núið. „Eins klisjukennt og það hljómar þá reyni ég einfaldlega að gera mitt besta í dag og alla daga, styrkja mig með hverju verkefni, og láta ekki bollaleggingar um framtíðina flækjast fyrir. Ég vil stækka sem listamaður, halda áfram að styrkja mig og þróast með hverju verkefni og fá vonandi tækifæri til að vinna áfram með jafn frábæru fólki og ég hef fengið til þessa.

Það hefur mikið gerst á tiltölulega stuttum tíma en mér finnst orð einsog „heppinn“ ekki viðkunnanlegt, því að staðreyndin er sú að maður hefur lagt allt í sölurnar og unnið myrkranna á milli til að ná árangri. Ég er búinn að standa á sviði síðan ég var sextán ára, tromma, syngja og leika, kann voða lítið annað og vil ekkert annað gera.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .