Héraðsdómur Reykjaness hefur aftur staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis um sóttkví manns en honum er nú gert að sæta sóttkví til 13. janúar. Maðurinn hefur verið í sóttkví frá 11. desember síðastliðnum en hann er þríbólusettur, einkennalaus og hefur ekki smitast þrátt fyrir að hafa verið útsettur fyrir smit á heimili sínu samfellt frá 10. desember.

Áður hafði maðurinn látið reyna á ákvörðun sóttvarnalæknis um að hann skyldi sæta sóttkví í héraði þar sem ákvörðunin var staðfest. Kærði hann úrskurð héraðsdóms til Landsréttar sem staðfesti ákvörðunina einnig, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um . Var honum þar gert að sæta sóttkví til miðnættis 30. desember síðastliðinn.

Með niðurstöðu Landsréttar var útlit fyrir að málinu væri lokið þar sem ekki virtist vera heimild til þess að skjóta málinu til Hæstaréttar en nokkrum klukkustundum áður en umþrættri sóttkví lauk greindist annar fjölskyldumeðlimur mannsins með SARS-CoV-2 veiruna og maðurinn í kjölfarið skikkaður í þá sóttkví sem héraðsdómur staðfesti í dag, til 13. janúar næstkomandi. Maðurinn getur losnað fyrr gegn neikvæðu PCR prófi, þá í fyrsta lagi degi eftir að einangrun fjölskyldumeðlims hans lýkur.

Lögum samkvæmt er hámarkslengd sóttkvíar 15 dagar en staðfesti Landsréttur ákvörðunina mun maðurinn vera um mánuð samfleytt í sóttkví. Er lengd sóttkvíar hans byggð á því að um fleiri en eina ákvörðun um sóttkví sé að ræða. Þessu hefur maðurinn meðal annars mótmælt.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hyggst maðurinn kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.

Tæplega sjö þúsund Íslendingar eru nú í sóttkví og hátt í níu þúsund í einangrun, með tilheyrandi raski fyrir atvinnulíf og skólastarfsemi.