Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið MainManager ehf. hefur fengið nýtt nafn og heitir nú Ørn Software ehf. Norska hugbúnaðarfyrirtækið View Software keypti öll hlutabréf í Mainmanager í lok desember á síðasta ári og hafa fyrirtækin nú sameinast undir nafninu Ørn Software.

Guðrún Rós Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Ørn Software á Íslandi, segir nafnabreytinguna lið í því að koma á sameiginlegri sýn og gildismati allra fyrirtækja innan Ørn Software fjölskyldunnar, nýta styrk­leika þeirra til þess að skapa heild­stætt fram­boð lausna í upp­lýs­inga­tækni og efla þjón­ustu við viðskipta­vini enn frek­ar.

Ørn Software er hratt vaxandi fyrirtæki, velta þess tvöfaldaðist á síðasta ári og eru viðskiptavinir fyrirtækisins á Norðurlöndunum yfir 1.200 talsins. Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi á Norðurlöndum á sínum kjarnasviðum og jafnframt að sækja á erlenda markaði.

Mikilvægt skref var tekið í þeim efnum þann 29. mars síðastliðinn þegar Ørn Software var skráð á Euronext Growth markaðinn í Ósló og sótti þar tæpa 4 milljarða íslenskra króna, sem gerir fyrirtækinu kleift að halda áfram að vaxa og bjóða viðskiptavinum upp á enn fjölbreyttara lausnaframboð og þjónustu.

Ørn Software býður upp á SaaS (software as a service) lausnir með áherslu á fasteigna- og gæðastjórnun auk lausna fyrir orkuhagræðingu og sjálfbærni. Guðrún Rós segir mikla eftirspurn vera eftir stafrænum lausnum sem stuðla að aukinni skilvirkni í fasteignastjórnun og að Ørn Software taki af fullum krafti þátt í þeirri spennandi þróun sem er að eiga sér stað í faginu.