Sprotafyrirtækið Avo hefur tryggt sér þriggja milljóna Bandaríkjadala fjármögnun, en það samsvarar 419 milljónum íslenskra króna. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu. Stefanía Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Avo, sagði fyrst frá því að umrædd fjármögnun hafi verið tryggð í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið á síðasta ári. Avo er næsta kynslóð af gagnastjórnun sem byltir skilningi fyrirtækja á notendaupplifun. Avo breytir hvernig vörustjórar, forritarar, og gagnasérfræðingar skipuleggja, skrá og stjórna gögnum sem fyrirtæki nota til að greina og skilja upplifun notenda í stafrænum vörum.

„Fjárfestahópurinn er leiddur af bandaríska vísisjóðnum GGV Capital með þátttöku Heavybit og Y Combinator, sem eru allt þungavigtarsjóðir í Kísildalnum með sérþekkingu í að fjárfesta í ört vaxandi nýsköpunarfyrirtækjum eins og Slack, TikTok og Airbnb,“ segir í tilkynningunni.

GGV Capital er alþjóð­legur fjár­fest­ing­ar­sjóður með höfuðstöðvar í Kísildalnum. GGV Capital sér­­hæfir sig í fjár­­­fest­ingum í nýsköpun á ýmsum þró­un­­ar­­stigum fyr­ir­tækja og stýrir um sex millj­örðum dala, eða sem samsvarar 840 millj­arða króna og hefur fjárfest í ofurvaxtafyrirtækjum á borð við Slack, TikTok og Alibaba.

„Heavybit og Y Combinator fjárfestu einnig í þessari umferð. Heavybit sérhæfir sig í að fjárfesta í forritaralausnum og fjárfestu meðal annars snemma í Stripe, CircleCI and PagerDuty, sem öll hafa gjörbreytt starfsumhverfi hugbúnaðarteyma. Y Combinator fjárfesti upprunalega í Avo í byrjun 2019 og fylgdi fjárfestingunni eftir með auknu fjármagni í þessari lotu, en Y Combinator er einn þekktasti nýsköpunarhraðall í heimi eftir að hafa fjárfest meðal annars í "einhyrningum" á borð við Airbnb, Stripe og Dropbox, sem hafa öll verið metin á tugi milljarða Bandaríkjadollara. Til viðbótar við fyrrnefnda fjárfesta tóku reyndir englafjárfestar frá Kísildal þátt í fjármögnunni, sem og íslensku vísisjóðirnir Brunnur og Crowberry,“ segir í fréttatilkynningu.

Þurfa að geta tekið ákvörðun hratt

„Fyrirtæki hafa aldrei þurft að skilja notendur sína betur og hraðar en nú. Framboð stafrænna vara hefur aldrei verið meira, og neytendur velja hiklaust vöruna með bestu upplifunina. Þess vegna hafa vöruteymi ekki lengur efni á að hægja á vöruákvörðunum á meðan þau bíða í daga eða vikur eftir niðurstöðum frá miðlægu greiningarteymi. Í staðinn þarf hver manneskja í fyrirtækinu að getið tekið eigin ákvarðanir hratt út frá staðreyndum. Spotify er aðeins eitt dæmi um fyrirtæki sem vinnur samkvæmt þessum vinnubrögðum.

Vandamálið er að gögn um notendaupplifun eru brothætt og mistök sem virðast smávægileg geta alvarlega skekkt forsendur sem eru svo notaðar til ákvarðana fyrir framtíð fyrirtækisins. Það að tryggja gæði gagna hefur hingað til verið flókið og seinlegt, og krafist tíma og vinnu forritara og vörustjóra sem annars hefði farið í að þróa vörunýjungar. Avo tryggir að teymi þurfa ekki að fórna hraða í vöruþróun fyrir áreiðanleika gagna um notendaupplifun,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Avo tryggi stöðugleika gagna

Hugbúnaðarfyrirtækið Rappi er einn af viðskiptavinum Avo, en félagið var nýverið metið á yfir 3,5 milljarða Bandaríkjadala eftir fjárfestingu frá SoftBank. Rappi gerir veitingastöðum og verslunum kleift að bjóða upp á heimsendingarþjónustu fyrir meira en 12 milljón viðskiptavini mánaðarlega. Damian Sima, yfirmaður hugbúnaðarþróunar segir „vandamálið sem við höfum verið að glíma við er að við hverja uppfærslu á vörunni, brotna gögnin okkar um notendaupplifun. Slíkar lagfærslur samanstóðu af 25% af öllum verkefnunum sem við lögðum fyrir þróunarteymið okkar". Hann bætir við "með Avo er stöðugleiki gagna okkar tryggður".

Patreon er markaðstorg þar sem velunnarar geta gerst mánaðarlegir áskrifendur að framleiðslu skapandi fólks, eins og til dæmis hlaðvörpum, greinum eða myndböndum. Vöruteymi Patreon segir í TechCrunch að sú vinna sem fór í að uppfæra eða lagfæra gögn, hafi með Avo farið úr fjórum dögum fyrir hverja vöruuppfærslu niður í eina klukkustund.

Stækka teymið

Stofnendur Avo, Sölvi Logason og Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, stýrðu áður gagnagreind í Plain Vanilla Games við gerð leikjarins QuizUp. Þar sáu þau um greiningarsvið, vöxt, og vöruþróun. Avo er nú ört vaxandi fjarvinnufyrirtæki.

„Við erum spennt að halda áfram þróun Avo til að auka skilvirkni hjá flottustu vöruteymum heims. Fjármögnunin frá GGV Capital, Heavybit og Y Combinator gerir okkur kleift að stækka teymið hraðar á næstu vikum og mánuðum, meðal annars í vöruþróun, sölu og markaðssetningu og að fá til liðs við okkur frábæra leiðtoga - bæði á Íslandi og erlendis," segir Stefanía.