Eftir að hafa lokið störfum hjá QuizUp ákvað Stefanía Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Avo, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, að stofna nýsköpunarfyrirtækið Visku ásamt tveimur fyrrverandi samstarfsmönnum sínum hjá QuizUp. Eftir nokkuð stutta vegferð Visku komust stofnendur fyrirtækisins þó að því að ástríða þeirra lægi fremur í því að finna lausn við ofangreindu gagnavandamáli og varð Avo þannig til.

„Um leið og ég lauk störfum hjá QuizUp stóð ég frammi fyrir því að velja um hvort ég vildi stofna fyrirtæki með tveimur vinum mínum úr QuizUp eða fara að gera eitthvað annað. Og aftur fór það svo að ævintýri nýsköpunarumhverfisins kölluðu langhæst á mig. Ég hef flutt yfir þrjátíu sinnum yfir ævina og hef velt því fyrir mér hvort fólk verði háð örum breytingum og öfgakenndum aðstæðum. Ég hef a.m.k. alltaf sótt í slík umhverfi. Því hentar nýsköpunargeirinn mér vel.

Úr varð að ég stofnaði fyrirtækið Visku ásamt Völu Halldórsdóttur og Árna Hermanni Reynissyni. Markmiðið var að gjörbylta því hvernig fyrirtæki þjálfar fólk, með því að leikjavæða örþjálfun og gera fyrirtæki skilvirkari í að koma þekkingu til starfsfólks og viðhalda henni. Við lærðum heilmargt á þessu en ég gleymi þó aldrei augnablikinu sem varð kveikjan að stofnun Avo. Á miðri vegferð í Visku gáfum við út breytingu sem var byggð á röngum gögnum. Þetta virtist smávægilegt á þessum tíma, en það rann upp fyrir mér hversu risastórt og flókið þetta vandamál væri - og að á meðan ég tæki þátt í stafrænni vöruþróun þá yrði þetta alltaf óþolandi flókið.

Okkur þótti fráleitt að smíða aftur lausn innanhúss til að gögnin yrðu í lagi. Í kjölfarið af þessu fór ég að spyrjast fyrir meðal kollega í fyrirtækjum sem hreyfa sig hratt og viðhalda alþjóðlegu samkeppnishæfi sínu með því að skilja notendahegðun með gögnum. Það kom í ljós að þetta fólk var að glíma við nákvæmlega sömu vandamál og var stöðugt að velja á milli þess að koma vörunni hratt frá sér eða hægja á útgáfuferlum til að tryggja gæðastjórn á gögnum. Á endanum smíða öll fyrirtæki einhver innanhússkerfi sem eru ekkert sérstök - og alls ekki fullsmíðaðar lausnir við vandamálinu.

Þetta varð til þess að við tókum ákvörðun um að við ætluðum að leysa þetta vandamál fyrir fyrirtæki sem eru að reyna að vera samkeppnishæf á þessum markaði, sem krefst þess að við hreyfum okkur á leifturhraða í rétta átt. Sölvi Logason bættist svo við hópinn og varð einn af stofnendum Avo. Það fór því svo að við fórum að einbeita okkur að þessu verkefni og settum Visku á hilluna," segir Stefanía.

Lærdómsríkt að fara í gegnum Y Combinator viðskiptahraðalinn

Fyrr á þessu ári var greint frá því að Avo hefði hlotið inngöngu inn í viðskiptahraðalinn Y Combinator, en um er að ræða elsta slíkan hraðal í heimi og er hann einnig talinn sá öflugasti. Avo varð þar með fyrsta íslenska fyrirtækið til að tryggja sér þátttöku í hraðlinum. Y Combinator leggur 150 þúsund dollara í hlutafé til þátttakenda, en áður hafði Avo tryggt sér 1,2 milljóna dollara fjármögnun frá Investa og Brunni. Mörg fyrirtæki sem hafa farið í gegnum hraðalinn hafa síðar gert það gott og má í þessu samhengi nefna fyrirtæki eins og Dropbox, Airbnb og Reddit. Hraðallinn fer fram í Kísildalnum í San Francisco. Avo fór í gegnum hraðalinn síðastliðið vor, þar sem við tók stíf þriggja mánaða dagskrá undir leiðsögn færustu sérfræðinga heims. Að sögn Stefaníu var það mjög lærdómsríkt ferli að fara í gegnum hraðalinn. Hún segir jafnframt að Avo hafi í kjölfar þátttökunnar í hraðlinum tryggt sér fjármögnun frá fjárfestum í Kísildalnum, en hún geti því miður ekki sagt nánar frá því fyrr en búið er að hnýta alla lausa enda, sem hún reiknar með að klárist áður en langt um líður.

„Kísildalur er þéttasta svæði heims af fólki sem hefur verið í sömu aðstöðu og við. Það eru mjög mörg fyrirtæki þar sem hafa tekið þátt í að gjörbylta hegðunarmynstrum neytenda. Til dæmis Airbnb, sem breytti því hvernig fólk ferðast. Eða Lyft og Uber sem breyttu samgöngumynstrum innanbæjar. Að vera umkringd reynslumiklu fólki sem lifir og hrærist í þessu umhverfi er mikill innblástur. Að fá síðan að taka þátt og vinna með ráðgjöfunum í Y Combinator, sem hafa séð ótrúlegt magn fyrirtækja komast á markað, var frábært tækifæri. Þau búa yfir gífurlegri þekkingu, sem við höfum ekki aðgang að hér á Íslandi.

Y Combinator er í sjálfu sér frumkvöðlafyrirtæki. Stofnendur hraðalsins höfðu fyrir fimmtán árum trú á því að uppfinningar heimsins myndu fara fram í gegnum nýsköpun og lítil fyrirtæki, en ekki stór fyrirtæki. Þetta var breyting sem hóf veldisvísisvöxt í kringum tíunda áratuginn með vexti hugbúnaðar;  allt í einu áttu lítil teymi alvöru séns á að keppa við stórfyrirtæki í að taka yfir einhvern markað. Y Combinator veðjaði á þessa óumflýjanlegu breytingu í heiminum. Þau hugsuðu: svona er heimurinn að breytast og við ætlum að vera þau sem hjálpa fólki að koma þessum hugbúnaðarfyrirtækjum á markað.

Í kjölfarið af því að hafa fengið inngöngu í Y Combinator erum við komin inn í net sem inniheldur nokkur þúsund stofnendur ótrúlegra fyrirtækja, sem eru alltaf til í að hjálpa. Y Combinator hefur einnig byggt upp þekkingargrunn (e. knowledge database) sem er aðeins aðgengilegur fyrir þennan hóp stofnenda. Þar er að finna svör við erfiðu spurningunum sem þú finnur ekki á hinu opna interneti. Inni í gagnagrunninum er einnig hægt að gefa fjárfestum umsagnir og því hægt að nálgast upplýsingar um reynslu annarra stofnenda af ákveðnum fjárfestum. Allir stofnendur sem hafa tekið þátt í Y Combinator gefa einkunn og skrifa umsagnir um fjárfestana sem þeir hafa unnið með eða átt samskipti við til þess að hjálpa öðrum stofnendum að vinna með góðum fjárfestum. Y Combinator hefur stuðlað að breytingu á valdadýnamíkinni á milli stofnenda og fjárfesta. Völdin voru áður að miklu í höndum fjármagnsins, en hafa nú að miklu leyti færst í hendur stofnendanna."

Nánar er rætt við Stefaníu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .