Á meðan yfirvöld segjast berjast við niðurskurð í opinbera kerfinu er lítil orka lögð í að samræma augljósa þætti eins og skráningu á sjúkrasögu sjúklinga í miðlægan gagnagrunn sem sparað gæti stórfé. Engin heildarsamræming er enn til staðar í tölvuskráningu sjúklinga og sjúkrasögu (journal/sjúrnal) þeirra á Íslandi þrátt fyrir augljósa kosti þess. Á meðan er miklum fjármunum sóað í heilbrigðiskerfinu vegna endurtekninga á rannsóknum sem hæglega mætti komast hjá.

Nýttu ekki góðærið

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir þetta mjög bagalegt. „Góðærið gekk fram hjá okkur án þess að þessi mál væru leyst og það hefur aldrei verið settur peningur í þetta. Það er samt mikill almennur áhugi fyrir þessu, en umræðan sem fór fram í kringum miðlægan gagnagrunn DeCode á sínum tíma hefur örugglega tafið fyrir okkur líka. Nú er það þannig að hver og ein heilsugæslustöð ber ábyrgð á sínum „sjúrnölum". Það er þó verið að koma upp miðlægu kerfi fyrir höfuðborgarsvæðið. Á heilbrigðisstofnun höfuðborgarsvæðisins hafa menn verið að tengja saman sjúkraskrár og gagnagrunna. Það er þó bara innan svæðisins."

Geir segir þetta vissulega vera gríðarlega mikið fjárhagslegt hagsmunamál heilbrigðiskerfisins auk þess að geta stóraukið öryggi sjúklinga sem koma á heilbrigðisstofnun í bráðatilfellum. Samt hafi fléttast inn í þetta margvíslegir aðrir þættir sem hafi flækt málið, eins og spurningar um persónuvernd og fleira.

Algengt er að sjúklingar sem þurfa að leita læknis út fyrir eigin sjúkraumdæmi þurfa að fara í gegnum nýja sjúkdómsgreiningu þó að öll gögn kunni að liggja fyrir í heimahéraði sjúklingsins. Læknar í Reykjavík hafa þannig enga möguleika á að leita í miðlægum gagnagrunni að sjúkdómasögu sjúklings sem kemur þar til meðferðar utan næsta nágrennis Reykjavíkur. Einnig eru margvíslegar hindranir í að fá slík gögn send á milli umdæma. Er því farin sú leið til öryggis að taka margvísleg sýni úr innlögðum sjúklingi til rannsóknar til að búa til nýjan grunn til að byggja á. Allt kostar þetta mikla fyrirhöfn og fjármuni og getur auk þess skapað sjúklingum óþarfa hættu vegna tafa í bráðatilfellum.

Í skötulíki

„Ég held að við séum þó flest sammála um að við hefðum viljað sjúkraskýrsluna tiltæka með rafrænum hætti líkt og á bankakorti um leið og sjúklingur kemur til læknis. Að sjálfsögðu getur þetta skipt miklu máli ef tíminn er naumur. Þessi mál hafa verið mikið til umræðu og stór og mikil saga þar að baki. Þetta er búið að velkjast í kerfinu en aldrei neinn peningur til svo hægt sé að klára málið. Þetta er bara í skötulíki en við reynum að halda utan um það sem okkur ber samkvæmt lögum. Ég held við gerum það þokkalega en viljum gjarnan skerpa þetta. Ég vildi sjálfur gjarnan vilja sjá fram á miðlæga sjúkraskrá fyrir allt landið," segir landlæknir.

Sjá nánar í nýasta tölublaði Viðskiptablaðsins