Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands hafa kortlagt ferlið við byggingu húsnæðis hér á landi. Niðurstaða þeirra er sú að flókið regluverk við byggingu húsnæðis eykur bæði tíma og kostnað og leiðir á endanum til hærra húsnæðisverðs á Íslandi. Í tilkynningu sem stofnanirnar sendu frá sér er kallað eftir einfaldara regluverki og breyttri stofnanaumgjörð í tengslum við byggingu húsnæðis.

Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins, segir að unnið hafi verið að því að laga regluverkið hér heima til samræmis við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. „Búið er að lagfæra einn af tólf köflum byggingarreglugerðar til samræmis við önnur Norðurlönd,“ segir hann. „Okkur finnst samt ekki nóg að gert. Að sjálfsögðu ætti að gera slíkt hið sama fyrir hina kaflana. Flækjustig fyrir þá sem eru að hefja framkvæmdir hér á landi er miklu meira en annar staðar og tafir í afgreiðslu umsókna sömuleiðis.“

Viljinn dugir ekki einn og sér

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræð­ingur Viðskiptaráðs, tekur í sama streng og Friðrik og kallar eftir sterkari viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. „Þótt ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að til standi að einfalda regluverkið hefur lítið gerst í þeim efnum,“ segir hann. „Þá hefur stjórnsýslan ekki fylgt í kjölfarið. Enn er skortur á leiðbeiningum, málsmeðferðartími er langur og ósveigjanleika og skorts á þjónustulund gætir hjá mörgum opinberum aðilum. Viljinn dugir því ekki einn og sér – honum þurfa að fylgja aðgerðir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .