Southwest hættir við að auka umsvif sín
Hækkandi eldsneytisverð útskýrir ákvörðun bandaríska lággjaldaflugfélagsins.

Bandaríska lággjaldaflugfélagið Southwest Airlines hefur frestað því til ársins 2014 að stækka leiðarkerfi sitt, en til stóð að fjölga áfangastöðum á þessu ári. Að sögn Gary Kelly, forstjóra Southwest, má helst rekja ástæðuna til hækkandi eldsneytisverðs.

Til stóð að fjölga tíðni og bæta við nýjum áfangastöðum í sumar. Kelly segir þó að flugáætlun félagsins verði óbreytt út þetta ár og að öllum líkindum líka á næsta ári.

Í frétt Bloomberg fréttaveitunnar er haft eftir greiningaraðila frá fjárfestingafélaginu Maxim Group, að Southwest Airlines hafi alltaf hagað sér öðruvísi en önnur félög í þessum geira. Nú sé hins vegar komið að því að Southwest þurfi að spila sama leik og aðrir, þ.e. að endurskoða tíðni og áfangastaði, ætli félagið sér að vera samkeppnishæft.