Bandaríska lággjaldaflugfélagið Southwest Airlines vinnur nú að því að kaupa annað bandarískt flugfélag, AirTran Airways.

Southwest kaupir félagið fyrir 3,4 milljarða með skuldum. Það þýðir að Southwest mun greiða um 1,4 milljarða dali fyrir félagið auk þess að taka yfir 2 milljarða dala skuldir AirTran.

Með kaupunum á AirTran eykur Southwest nokkuð umsvif sín í Bandaríkjunum auk þess sem félagið mun fljúga með farþega í afþreyingaferðir í Karabíska hafinu og til Mexíkó. Þannig mun Southwest til dæmis fljúga til og frá LaGuardia flugvelli í New York og Logan flugvelli í Boston en þangað hefur félagið aldrei flogið áætlunarferðir fyrr.

Í tilkynningu frá Southwest þar sem tilkynnt var um kaupin kemur fram að félagið mun nú fljúga til yfir 100 flugvalla og þjónusta um 100 milljónir farþega á ári hverju.

Southwest er, eins og nafnið gefur til kynna, nokkuð ráðandi á lággjaldaflugmarkaði á vesturströnd og suðurhluta Bandaríkjanna. Með kaupunum á AirTran nær félagð hins vegar að flytja umsvif sín til austurstrandarinnar.

Hluthafar beggja félaga eiga þó enn eftir að samþykkja kaupin en ef af þeim verður má búast við að búið verði að ganga frá kaupunum á fyrri helmingi næsta ár.

Töluverðar hræringar hafa verið í bandarískum flugiðnaði síðustu árin. Þar ber hæst að nefna sameiningu Northwest Airlines og Delta Air Lines á síðasta ári en með þeirri sameiningu varð til stærsta flugfélag heims.

Þá samþykktu hluthafar Continental Airlines og United Airlines í síðustu viku að hefja sameiningarviðræður félaganna. Ef af henni verður mun það verða stærsta flugfélag heims.