Bandaríska lággjaldaflugfélagið Southwest Airlines hefur pantað 150 nýjar Boeing vélar af gerðinni 737 Max. Boeing 737 Max er ný útgáfa af mest seldu vél Boeing hingað til, Boeing 737.

Andvirði pöntunarinnar er um 19 milljarðar Bandaríkjadala skv. listaverði Boeing en þetta er stærsta einstaka flugvélapöntun í sögu Boeing. Southwest verður jafnframt það flugfélag sem fær fyrstu 737 Max vélin afhenta.

Sem fyrr segir er Boeing 737 mest selda vél Boeing hingað til. Ný útgáfa af vélinni, svokölluð 737 Next Generation, var fyrst tekin í notkun árið 1998 (fyrsta vélin fór einnig til Southwest). Nú hefur Boeing þróað nýja útgáfu af vélinni sem kallast 737 Max.

Tölvulíkan af Boeing 737-7 Max.
Tölvulíkan af Boeing 737-7 Max.

Tölvulíkan af Boeing 737-7 Max.

Líkt og stærsti keppinauturinn, evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus, hefur Boeing unnið að því að þróa sparneytnari og hljóðlátari vélar en áður. Báðir framleiðendurnir hafa breytt og bætt skrokk vélanna en auk þess hafa verið þróaðir sparneytnari hreyflar á vélarnar. Airbus hefur tekist að kynna A320neo, sem er ný útgáfa af mest seldu vél Airbus, 320. Boeing hefur nú svarað þeirri samkeppni með 737 Max.

Gert er ráð fyrir að Southwest fái fyrstu 737 Max vélin afhenta árið 2017. Southwest Airlines á nú í heildina pantaðar 350 vélar hjá Boeing sem verða afhentar á árunum 2012 – 2022.

Flugfloti Southwest Airlines telur nú þegar 565 vélar, allar af gerðinni Boeing 737. Langflestar, eða 370 vélar, eru af gerðinni 737-700. Þá félagið um 170 vélar af gerðinni 737-300 og 25 vélar af gerðinni 737-500. Eins og gefur að skilja er Southwest stærsti notandi 737 vélarinnar.

Boeing 737 vél í litum Southwest Airlines.
Boeing 737 vél í litum Southwest Airlines.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Boeing 737 vél í litum Southwest Airlines.