Mannréttindadómstóllinn í Strasborg hefur skipað rússnesku ríkisstjórninni að greiða rússneskum ellilífeyrisþega jafnvirði 37.150 evra fyrir skuldabréf sem maðurinn á. Skuldabréfin voru gefin út af ríkisstjórn Sovétríkjanna í stjórnartíð Leonids Brezhnev á árunum 1964 til 1982. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur setti Boris Jeltsín, fyrrverandi forseti Rússlands, lög um að greiða skyldi eigendum bréfanna andvirði þeirra. Fjallað er um málið á vef Bloomberg .

Skuldabréfin eru áhugaverð að mörgu leyti því þau voru einnig ígildi getraunamiða og gátu heppnir vinningshafa meðal annars unnið bifreið af gerðinni Volga. Eftirstandandi skuldabréf nema hins vegar um 25 billjón rúblum, sem samsvarar um 785 milljörðum dollara, eða um helming af landsframleiðslu Rússa.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur hins vegar reynst tregur til að greiða upphæðina út þar sem það myndi valda ríkisstjórninni talsverðum vandræðum.

Pútín ákvað meðal annars í apríl að fresta greiðslum af bréfunum allavega fram til ársins 2015. Ef Pútín og ríkisstjórn Rússlands viðurkenna kröfurnar að fullu þá er talið að það gæti tífaldað skuldir landsins.

Volga, eða Volgur eins og þær voru nefndar í fleirtölu hér á landi, voru framleiddar í Rússlandi allt frá árinu 1956 og fram til ársins 2010. Þær þóttu með glæstari bílum í Ráðstjórnarríkjunum. Bílinn sem hér sést er af gerðinni Volga M24 árgerð 1976 og var hann dísilknúinn.