Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's sendi út viðvörun í dag um að breska ríkið verði að koma fjármálum sínum í lag ella kunni landið að missa hæstu lánshæfiseinkunnina, AAA. Horfum var breytt úr hlutlausum í neikvæðar og er þetta í fyrsta sinn sem það hefur gerst frá því S&P fór að meta Bretland árið 1978.

Breski hlutabréfamarkaðurinn lækkaði í dag um 2,8% og leiddi lækkanir í Evrópu, en Euronext 100 vísitalan lækkaði um 2,4%.

Bretland er að sögn FT fyrsta stóra ríkið sem hefur fengið aðvörun um það í fjármálakreppunni að lánshæfi þess kunni að lækka. S&P byggir afstöðu sína á því að hætta sé á að hreinar skuldir ríkisins verði 100% af landsframleiðslu og haldist það háar.

Missi Bretland hæstu lánshæfismatseinkunn kann það að valda hækkun fjármagnskostnaðar, sem setur enn meiri þrýsting á stjórn Gordon Brown að draga úr lántöku hins opinbera. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatti Bretland í vikunni til að draga hraðar úr hallarekstri hins opinbera þegar hagkerfið færi að braggast eftir samdráttinn, að því er segir í FT.