Standard & Poor's breytti í dag horfum sínum fyrir TM úr stöðugum í jákvæðar. Langtíma lánshæfismat félagsins, BBB-, er jafnframt staðfest en það er sama einkunn og S&P veitti langtímaskuldbindingum íslenska ríkisins í síðustu viku. Breyting á horfum TM er gerð í kjölfar þess að matsfyrirtækið breytti horfum sínum fyrir íslenska ríkið. Standard & Poor's hefur einnig breytt horfum Landsvirkjunar af sömu orsökum.

Í tilkynningu frá TM segir að félagið hafi frá árinu 2007, eitt íslenskra tryggingafélaga, verið með styrkleikamat frá S&P. Matið veiti TM tækifæri til að sækja vátryggingaviðskipti á erlenda markaði og sé því mikilvægur liður í vaxtarmöguleikum félagsins.

Ástæða þess að horfur TM fylgi horfum fyrir langtímaskuldbindingar íslenska ríkisins er sú hversu stór hluti vátryggingarekstrar og fjárfestinga félagsins er á íslenskum markaði.