Hagnaður SP-Fjármögnunar nam 960 milljónum króna í fyrra, sem er 20% aukning hagnaðar frá árinu 2006. Í tilkynningu kemur fram að afkoman hafi verið mjög góð og í samræmi við áætlanir. Skipting útlána á atvinnugreinar er sögð vel dreifð og jöfn á milli útlána til einstaklinga og fyrirtækja. Fram kemur að árið 2008 hafi farið vel af stað og að áætlanir geri ráð fyrir að árið verði hagfellt.

SP-Fjármögnun er dótturfélag Landsbanka Íslands [ LAIS ] sem á 51% hlutafjár. Aðrir hluthafar eru nokkrir sparisjóðir og stærstur er Byr með 34,5% eignarhlut.

Hreinar vaxtatekjur jukust um þriðjung og námu 1,8 milljörðum króna og hreinar tekjur jukust ámóta mikið og námu 2 milljörðum króna árið 2007.

Útlán aukast um 28%

Útlán og kröfur námu tæpum 48 milljörðum króna í lok ársins og jukust um 28% yfir árið. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD reglum nam 11,3% í lok síðasta árs, sem er lækkun úr 11,9% árið 2006. Starfsmönnum eignaleigufyrirtækisins fjölgaði um tólf á árinu og voru þeir 43 nú um áramótin.

Hagkvæmari rekstur

SP-Fjármögnun hefur vaxið hratt á síðustu árum og hefur kostnaður sem hlutfall af meðalstöðu heildarfjármagns lækkað mikið. Hann var um 2% á árunum 2003 til 2005, lækkaði í 1,6% árið 2006 og í 1,3% í fyrra. Þróun rekstrarkostnaðar sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum hefur einnig verið jákvæð og lækkaði í fyrra úr rúmum 30% í 27,4%.

Vanskil aukast lítillega

Hlutfall eldri en 30 daga vanskila hækkaði úr 0,46% í 0,54% yfir árið í fyrra og heildarvanskil í árslok námu 472 milljónum króna. Á sama tíma nam virðisrýrnunarreikningur útlána og krafna 815 milljónum króna, eða 1,7% af heildarútlánum.

Virðisrýrnun útlána af meðalstöðu útlána hafði árið 2006 farið hratt lækkandi í tvö ár, en hlutfallið var 1,2% árið 2004. Í fyrra hækkaði hlutfallið lítillega á ný, eða úr 0,3% í 0,4%. Endanlega töpuð útlán af meðalstöðu nettó útlána hafa hins vegar farið lækkandi á milli ára á síðustu árum. Þau voru 0,4% árið 2005, 0,1% árið 2006 og voru komin niður í 0,07% í fyrra. Í þessu sambandi er hins vegar rétt að hafa í huga að útlán hafa vaxið hratt, sem að öðru óbreyttu veldur því að þetta hlutfall lækkar.