Endurútreikningi á um 20 þúsund lánasamningum er þegar lokið hjá SP-Fjármögnun. Þar af eru 5 þúsund samningar, sem hafa verið yfirteknir á samningstímanum, en lög nr. 151/2010, sem tóku gildi 22. desember sl., kveða á um með hvaða hætti yfirtekin lán skulu meðhöndluð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SP-fjármögnun.

„Samkvæmt lögunum miðast réttindi hvers og eins við þann tíma sem viðkomandi var lántaki samningsins. Leiðréttingin verður því tvíþætt, þ.e. annars vegar greiðsluuppgjör út frá breyttum vaxtaforsendum og hins vegar höfuðstólsleiðrétting vegna gengisbreytinga. Þessi reikniaðferð gerir það að verkum að samningar geta í einstaka tilvikum hækkað,“ segir í tilkynningu.

53% óska eftir að fá greitt út

„Af þeim 20 þúsund samningum sem hafa verið endurútreiknaðir hjá SP-Fjármögnun hafa eftirstöðvar samninganna lækkað að meðaltali um 49%. Alls hafa 53% viðskiptavina SP-Fjármögnunar, sem eiga inneign eftir endurútreikning, óskað eftir að fá hana greidda út en 47% þeirra hafa óskað eftir að skuldajafna inneigninni. SP-Fjármögnun hefur greitt út um 1,3 milljarða til viðskiptavina sinna eftir endurútreikninga.

Starfsfólk SP-Fjármögnunar á enn eftir að endurútreikna tæplega 10 þúsund samninga og stendur sú vinna yfir. Stefnt er að því að viðskiptavinir SP-Fjármögnunar fái upplýsingar um stöðu endurútreikninga innan þess tíma sem lögin kveða á um en lánafyrirtæki fá allt að 60 daga frest frá gildistöku laganna til að senda lántaka útreikning á nýjum höfuðstól og/eða endurgreiðslu ofgreidds fjár en uppgjör skal fara fram innan 90 daga.“