Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn stóru bankanna þriggja úr BBB/A-2 í BBB+/A-2 og telur horfurnar stöðugar.

Að mati Standard & Poor’s er staða Arion banka sterk og þá sérstaklega eiginfjárstaða bankans. Það er jafnframt litið jákvæðum augum að bankinn hefur haldið áfram að selja hluti í yfirteknum félögum. Standard & Poor’s metur stöðu íslensks efnahagslífs góða. Hagvöxtur hefur verið mikill og skuldastaða bæði fyrirtækja og einstaklinga haldið áfram að lækka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka

Hækkun á lánshæfismati Íslandsbanka byggir að mestu á batnandi rekstrarumhverfi íslenska bankakerfisins í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta og lækkandi skuldastöðu fyrirtækja og heimila. Vegna þessa telur S&P að íslenska bankakerfið hafi styrkts og eiginfjárstaða Íslandsbanka batnað þegar horft er til langs tíma að teknu tilliti til áhættu í umhverfinu.

Stöðugar horfur á einkunn bankans endurspegla þá skoðun S&P að íslenskt efnahagslíf muni áfram standa á traustum fótum og að bankinn viðhaldi sterkri eiginfjárstöðu á komandi árum á sama tíma og hann haldi áfram að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan. Þetta segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum er vísað í fréttatilkynningu S&P, þar sem fram kemur að hagvöxtur á Íslandi sé kröftugur, styrkleiki efnahagslífsins hafi aukist og dregið hafi úr skuldsetningu einkageirans en að auknar áhyggjur af efnahagslegu ójafnvægi vegi að hluta til upp á móti þessum þáttum. Ennfremur segir að hækkun lánshæfismats Landsbankans endurspegli sterka fjárhagsstöðu bankans sem S&P telur að muni ekki breytast, jafnvel þótt bankinn vinni áfram að því að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan. Því telji S&P rétt að hækka lánshæfismat bankans í BBB+ til langs tíma og staðfesta A-2 lánshæfismat til skamms tíma. Mat um að horfurnar séu stöðugar endurspegli væntingar S&P um hagstæða þróun efnahagsmála á Íslandi og að fjárhagsstaða Landsbankans haldist áfram mjög sterk.